Háskóli Íslands

VÁ!

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi við Sagnfræði- og heimspekideild

Undrun er ein algengasta tilfinningin sem fólk upplifir gagnvart jöklum og háhitasvæðum á Íslandi. Þessu hefur Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki, komist að í rannsókn sinni á fagurfræðilegri upplifun manna á náttúrunni.

Í rannsókn sinni hefur Guðbjörg farið með hópa fólks í ferðir, annars vegar á háhitasvæðin í Krísuvík og hins vegar upp á jökla eins og Sólheimajökul, Svínafellsjökul og Falljökul. Þar hefur hún kannað viðbrögð fólksins við þessum náttúrufyrirbærum. Guðbjörg segir að ástæðan fyrir því að háhitasvæði og jöklar urðu fyrir valinu sé sú að þetta eru þau fyrirbæri sem eru algeng hér á landi en sjaldgæf á heimsvísu.

Hvað er ægifegurð?

„Ægifegurð er hugtak sem maður hefur ekki heyrt oft en lýsir upplifun af þessum fyrirbærum mjög vel," segir Guðbjörg. Hugtakið ber með sér að um sé að ræða eitthvað stórt og mikið fyrirbæri eða afl. Upplifun af ægifegurð á sér helst stað gagnvart slíkum yfirþyrmandi fyrirbærum. Hugtakið tengist því einnig að vera svolítið hræddur og segir Guðbjörg að margir hafi fundið fyrir smæð sinni gagnvart jöklunum. Sú tilfinning hafi svo gjarnan leitt til lotningar fyrir þeim.

Flestir sammála

Það sem kom Guðbjörgu helst á óvart var hversu marga sameiginlega þætti var að finna í svörum viðmælendanna, stundum komu jafnvel sömu setningarnar fram. Einnig kom á óvart hversu stórt hlutverk ímyndunaraflið spilar í upplifun fólks á náttúrunni, þ.e. fólk fer að reyna að sjá fyrir sér hvernig þetta hafi komið til, hvað hafi verið þarna áður og hvernig þetta eigi eftir að líta út í framtíðinni.

Leiðbeinendur: Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild, og Þorvarður Árnason, forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is