Háskóli Íslands

Verðmæti í ferskum fiski

Björn Margeirsson, doktorsnemi við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

„Íslenskir fiskframleiðendur vilja sífellt bæta hitastýringu í vinnslu og flutningi sjávarafurða. Rannsóknir hafa leitt í ljós mikilvægi hitastýringar, frá veiðum allt að diski neytandans," segir Björn Margeirsson, doktorsnemi í vélaverkfræði.

Rannsókn Björns gengur út á ferlagreiningu og varmaflutningslíkanagerð svo að fátt eitt sé nefnt. Hann nefnir mikilvægi þess að forkæla fiskbitana áður en þeim er pakkað. Einnig eru pakkningar í stöðugri þróun en þær eru gríðarlega mikilvægar til að verja ferskfisk fyrir hitaálagi í flutningi. Samstarfsaðilar í þessu verkefni eru úr öllum stigum þróunar kælikeðjunnar en þeir eru Matís, Promens Tempra, Brim, Samherji, Festi og Eimskip.

Björn segir að stefnt sé að því að verklag og búnaður tengdur vinnslu og flutningi batni frá upphafi verkefnisins. Hann segist líka vona að rannsóknin skili aukinni þekkingu á tölvuvæddri varma- og straumfræði. Auka þyrfti hagnýtingu þess fræðasviðs innan sjávarútvegs og matvælaiðnaðarins. Framleiðandi endurbættra pakkninga nýtur góðs af rannsókninni þar sem hann öðlast markaðsforskot á samkeppnisaðila sína og fiskframleiðendur með auknum gæðum, geymsluþoli og verðmætari vöru. Það verða þó ekki einungis þátttakendur verkefnisins og aðrir ferskfiskútflytjendur sem njóta góðs af verkefninu, heldur einnig almenningur með öruggari og betri fiskafurðum.

Leiðbeinandi: Halldór Pálsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. 

Björn hlaut doktorsnemastyrk úr Rannsóknasjóði 2009.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is