27 doktors- og meistaraverkefni við Háskóla Íslands hlutu styrki í dag að fjárhæð 60 millj. kr. úr Háskólasjóði Hf. Eimskipafélags Íslands þegar úthlutað var í fyrsta sinn úr sjóðnum.
Í ávarpi Kristínar Ingólfsdóttur rektors kom fram að stórefling doktorsnáms við Háskólann væri forsenda þess að skólinn næði því langtímamarkmiði að verða meðal 100 bestu háskóla í heimi. Styrkveitingin í dag og hópur styrkþega sýndi að skólinn hefði ríkan efnivið til að nálgast markið og að framsýni Háskólasjóðs Eimskipafélagsins um að veita styrki til doktorsnámsins sýndi í verki stuðning samfélagsins við þetta markmið skólans.
Rúmlega eitt hundrað umsóknir bárust Háskólasjóði Eimskipafélagsins. Í máli dr. Lárusar Thorlaciusar prófessors og formanns úthlutunarnefndar kom fram að umsóknirnar hefðu verið metnaðarfullar og endurspeglað fjölbreytt og þróttmikið vísindastarf og að mun fleiri umsóknir hefðu verðskuldað styrk en unnt var að veita.
Alls 22 doktorsnemar hlutu rannsóknastyrki til eins, tveggja eða þriggja ára. Í félagsvísindum hlutu fjórir doktorsnemar styrk, sjö í heilbrigðisvísindum, fjórir í hugvísindum og sjö í verkfræði og raunvísindum. Veittir voru þrír styrkir til skilgreindra doktorsverkefna þar sem leiðbeinandi mun auglýsa eftir umsóknum nemenda. Tveir styrkir voru veittir til stúdenta í rannsóknatengdu meistaranámi.
Úthlutun styrkja úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands er sú fyrsta í kjölfar sameiginlegrar viljayfirlýsingar sjóðsins og Háskóla Íslands um að nýta sjóðinn til að styðja stúdenta í rannsóknatengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Til styrkjanna er varið stighækkandi hlutfalli af bókfærðri hreinni eign Háskólasjóðs Eimskipafélagsins frá 2006 til 2009, þegar ætla má að sjóðurinn muni veita styrki til doktorsnáms fyrir um 100 millj. kr. árlega.
Í kjölfar breytinga á skipulagsskrá Háskólasjóðs Eimskipafélagsins sem gerðar voru í lok síðasta árs skipa stjórn sjóðsins formaður og varaformaður stjórnar Landsbanka Íslands og bankastjóri. Stjórn sjóðsins fól sérstakri úthlutunarnefnd að fara yfir umsóknir og hún ásamt vísindanefnd Háskólans lagði á þær faglegt mat.
Í úthlutunarreglum sjóðsins segir að um styrki til sjóðsins geti sótt stúdentar sem uppfylla inntökuskilyrði viðkomandi deildar í doktorsnám og fastráðnir kennarar eða sérfræðingar við Háskóla Íslands, sem ráðnir eru á grundvelli hæfnisdóms og uppfylla kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.
Yfirlit yfir styrkþega, verkefni og leiðbeinendur sem hlutu styrk.