Háskóli Íslands

Háskólinn er toppurinn

„Háskóli Íslands er stolt okkar Íslendinga,“ segir Bent Scheving Thorsteinsson, einn helsti velgjörðarmaður skólans. Á undanförnum árum hafa verið veittir fjölmargir styrkir úr þeim sjóðum sem stofnaðir hafa verið við háskólann í krafti framlags Bents og Margaretar Scheving Thorsteinsson, konu hans.

Fyrr í vetur var t.d. veittur styrkur úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinsonar til rannsókna á félagasamskiptum og einelti meðal barna og unglinga af erlendum uppruna. Styrkhafinn var Eyrún María Rúnarsdóttir, stundakennari á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, en Eyrún María leggur stund á doktorsnám frá Leiden-háskóla í Hollandi.

Sjálfur varð Bent fyrir einelti í æsku og hefur sú reynsla setið í honum alla tíð. Hann hefur lagt hart að sér til að koma í veg fyrir að annarra bíði svipuð örlög. Framangreindur sjóður hefur það markmið að stuðla að rannsóknum á einelti og kanna lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja það og bæta fyrir afleiðingar þess.

Á einum áratug hafa Bent og Margaret Scheving Thorsteinsson kona hans fært Háskóla Íslands um 60 milljónir króna sem hafa runnið til stofnunar þriggja styrktarsjóða. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar og Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar læknis. Sjóðirnir eru allir afar mikilvægir fyrir ungt fólk sem er að hasla sér völl á sviði vísinda.

Bent og Margaret hafa einnig fært Landspítalanum 30 milljónir króna. „Háskólinn er  toppurinn,“ segir Bent, „Það er okkur öllum mikið keppikefli að þessum skóla vegni vel. Margir góðir menn hafa lagt háskólanum lið og það vil ég líka gera.“

Þegar við hittum Bent hefur hann hreiðrað um sig innan um bækurnar sínar og horfir út um glugga sem vísar til suðurs; út á sundin sem hann sigldi yfir þegar hann fluttist hingað heim sem ungur drengur. Bent fæddist í Árósum í Danmörku árið 1922.

Ævi Bents er um margt afar sérstök. Foreldrar hans voru Þorsteinn Scheving Thorsteinsson lyfsali og Guðrún Sveinsdóttir. Bent fæddist utan hjónabands sem þótti ekki alveg eftir bókinni á þeim tímum. Fyrstu æviárin ólst Bent upp hjá dönskum fósturforeldrum og var fullviss um að vera danskur í húð og hár. En um níu ára aldur fékk hann ávæning af því að í honum rynni íslenskt blóð.

Honum var svo tjáð að móðir hans væri á lífi og hann hefði raunar hitt hana án vitneskju um hin raunverulegu tengsl þeirra, en hún hafði þá verið kynnt fyrir honum sem frænka hans. „Ég var undrandi á þessu öllu saman og stuttu síðar vildi móðir mín fá mig til Íslands úr fóstri,“ segir Bent. „Hún hafði þá gifst Óskari Þórðarsyni lækni, miklum ágætis manni. Aðstæður hennar  voru orðnar allt aðrar en þegar ég fæddist. Ég hafði hins vegar enga löngun til að þvælast þetta norður á ísbjarnarslóðir, ég þessi Dani,“ segir Bent og hlær. „Það lögðust hins vegar allir á eitt að varpa ljóma á ævintýraeyjuna Ísland og ég lét á endanum undan.“

Á hlýjum júlídegi árið 1931 steig Bent á skipsfjöl á Dronning Alexandrine sem hélt í langa siglingu frá Kaupmannahöfn til Íslands. Þegar skip Danska sameinaða gufuskipafélagsins kyssti viðlegukantinn í Reykjavík varð drengurinn fyrir miklum vonbrigðum. „Fátt var um fína drætti í bænum; ég kunni ekki stakt orð í íslensku, skildi ekki baun...  og var ofan í annað kallaður Bauni,“ segir Bent og brosir þegar hann rifjar upp mótlætið. „Ég mátti þola gríðarlega stríðni og varð hreinlega fyrir hræðilegu einelti.“

Þrátt fyrir mótlætið náði Bent að fóta sig í sínum nýju heimkynnum og náði öruggum tökum á íslenskunni. Hann átti síðar ágæt samskipti við föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, en ólst upp með móður sinni og eiginmanni hennar, Óskari Þórðarsyni, sem gekk Bent í föður stað. Þótt drengurinn væri býsna smár og horaður, þegar hann sté af skipsfjöl í súldinni sumarið 1939, þá varð hann síðar býsna hávaxinn maður og aðsópsmikill í viðskiptum. „Ég hóf nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1943 en lauk námi í hagfræði frá The Whorton School of Finance and Commerce í Bandaríkjunum. Þar kynntist ég henni Margaret minni og þetta hefur haldist í öll þessi ár,“ segir Bent, kíminn á svip.

„Eftir að ég hætti vinnu fór ég að sýsla með sparnaðinn og sá að hægt var að ávaxta peningana betur en bauðst í bönkunum. Ég hóf því viðskipti með verðbréf. Þegar ég var kominn fyrir vind vildi ég að aðrir gætu notið ávaxtanna af því sem ég hafði verið að sýsla.“ Bent stofnaði ýmsa styrktarsjóði, aðallega til stuðnings bágstöddum og til vísindarannsókna.

„Með því að styðja við vísindarannsóknir við háskólann hafa fjölmargir sýnt þjóð sinni sóma og það er mér sannur heiður að fá að komast í hóp þeirra manna sem hafa stutt skólann. Háskólinn hefur sett sér það markmið að verða á lista hundrað bestu háskóla í heimi. Ef ég get stutt skólann á þeirri vegferð með því að auka veg vísindarannsókna við skólann, þá finn ég til stolts.“

Hægt er að fræðast um styrktarsjóði við Háskóla Íslands á heimasíðu styrktarsjóðanna.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is