Þrír nemendur í framhaldsnámi erlendis hafa fengið styrki úr Ingjaldssjóði við Háskóla Íslands. Styrkjum var úthlutað úr sjóðnum í annað sinn við hátíðlega athöfn í tilefni af 20 ára afmæli meistaranáms við Viðskiptafræðideild föstudaginn 17. nóvember og nemur heildarupphæð styrkja 2,1 milljón króna.
Ingjaldssjóður var stofnaður 17. nóvember 2015 til minningar um Ingjald Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ingjaldur starfaði lengst af við Háskóla Íslands og arfleiddi hann skólann að öllum eigum sínum. Stofnfé sjóðsins nam sjötíu milljónum króna. Samkvæmt fyrirmælum sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds skal sjóðurinn styrkja efnilega íslenska námsmenn við Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun og alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist.
Styrkhafar árið 2017 eru:
Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari stundar meistaranám í sellóleik við Jacobs School of Music í Indiana University í Bandaríkjunum undir handleiðslu Brandon Vamos, sellóleikara Pacifica-kvartettsins, þar sem hún er handhafi Premier Young Artist Award skólastyrksins. Hrafnhildur hefur komið fram sem einleikari, í kammerhópum og hljómsveitum víða um Evrópu og Bandaríkin á hátíðum á borð við Aspen Music Festival og Bowdoin International Music Festival, leikið með hljómsveitum á borð við Cleveland Symphony Orchestra og tekið upp fyrir útgáfufyrirtækið Naxos undir stjórn Arthur Fagen. Hún lék einleik í Rococo-tilbrigðunum eftir Tchaikovsky með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar síðastliðnum eftir að hafa borið sigur úr býtum í einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hrafnhildur hefur sótt einkatíma og masterklassa hjá tónlistarmönnum á borð við Alisu Weilerstein, Johannes Moser, Richard Aaron, Derrett Adkins, meðlimum Pacifica-kvartettsins, Atar Arad, Emile Naoumoff og fleirum. Hrafnhildur vann nýverið strengjakvartettkeppni þar sem verðlaunin eru vikudvöl í Beethoven-húsinu í Bonn í Þýskalandi. Hún mun því halda tónleika í kammersal Beethoven-hússins í mars næstkomandi auk þess að fá að rannsaka upprunaleg handrit að verkum Beethovens undir handleiðslu helstu Beethoven-sérfræðinga okkar tíma.
Snæbjörg Guðmunda Gunnarsdóttir óperusöngkona hóf sérhæft meistaranám í óperusöng og sviðslist í apríl 2017 við Staatliche Hochschule für Musik und Darstellende Kunst í Stuttgart Þýskalandi. Skólinn var stofnaður 1857 og er elsti tónlistarháskólinn í Baden – Wüttemberg héraði, námið spannar tvö ár og þar er nemendum kennt allt sem við kemur óperu. Óperuskólinn er hluti af tónlistarháskólanum í Stuttgart og stunda þar rúmlega 800 nemendur nám. Nemendur taka þátt í óperuuppsetningu í leikhúsi skólans, Wilhelma Theater. Snæbjörg fer þar með eitt af aðalhlutverkum í óperunni Viva la mamma eftir Donizetti í leikstjórn Henrick Müller. Óperan verður frumsýnd í lok janúar á næsta ári.
Þórey Arna Snorradóttir stundar meistaranám í vörustjórnun og aðfangakeðjustjórnun við Árósaháskóla í Danmörku. Námið miðar að því að afla þekkingar og færni á því hvernig flæði vara og upplýsinga fer fram með aðstoð ýmissa greiningartækja til þess að nemendur geti hannað skilvirkar viðskiptastefnur fyrir aðfangakeðjur sem nýta má á fjölbreyttum sviðum atvinnulífsins. Námið er tvö ár og er mikil áhersla lögð á raunveruleg vandamál og lausnir þeirra sem nýtast nemendum eftir nám. Árósaháskóli var stofnaður árið 1928 og er stærsti háskóli Danmerkur. Hann er oftar en ekki meðal hundrað bestu háskóla í heiminum á hinum ýmsu listum sem að meta gæði háskóla. Viðskiptadeild háskólans hefur auk þess svokallað Triple Crown Accreditation sem eru þrjár stærstu og virtustu faggildingar sem að viðskiptaháskólar geta haft en einungis 77 skólar eða deildir hafa allar þrjár faggildingarnar.
Ingjaldssjóður, minningarsjóður Ingjalds Hannibalssonar prófessors, er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til ávinnings fyrir starf Háskóla Íslands með styrkjum til stúdenta og starfsfólks.
Styrktarsjóðir á borð við Ingjaldssjóð eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.