Háskóli Íslands

Metfjöldi fær styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum

Nítján nemendur og vísindamenn við Háskóla Íslands halda til Japans til náms og rannsókna og von er á níu nemendum og vísindamönnum frá japönskum háskólum hingað til lands í sömu erindagjörðum á næsta skólaári. Hóparnir eiga það sameiginlegt að hafa hlotið styrki úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands sem styður gagnkvæm fræðatengsl Íslands og Japan. Um metfjölda styrkhafa er að ræða en alls bárust 45 umsóknir um styrki að þessu sinni sem er einnig met. Samanlögð styrkupphæð að þessu sinni er um 172 þúsund dollarar sem nemur nær 24 milljónum króna.
 
Styrkjum úr Watanabe-sjóðnum hefur verið úthlutað árlega frá árinu 2011 og hátt í hundrað einstaklingar hafa þar hlotið styrk. Hefð er fyrir því að úthluta styrkjum við hátíðlega athöfn að viðstöddum stofnanda sjóðsins, Tozhizo Watanabe, en engin athöfn var haldin í ár sökum kórónuveirufaraldursins.
 
Watanabe-styrktarsjóðnum er ætlað að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japan en fyrir tilstilli hans hafa stúdentar við Háskóla Íslands fengið tækifæri til að stunda nám við japanska háskóla og japanskir stúdentar sótt nám við Háskólann. Sjóðurinn hefur einnig styrkt fræðimenn við Háskóla Íslands til rannsóknardvalar í Japan og sömuleiðis japanska vísindamenn til dvalar hér en með þessu hefur sjóðurinn stuðlað að auknu rannsóknasamstarfi milli Íslands og Japans á ýmsum fræðasviðum.
 
Sjóðurinn byggist á rausnarlegri gjöf Toshizos Watanabe sem nemur samtals fimm milljónum bandaríkjadala, jafnvirði um 700 milljóna króna, en um er að ræða eina stærstu peningagjöf sem einstaklingur hefur fært Háskóla Íslands.
 
Í stjórn sjóðsins sitja Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði, sem jafnframt er formaður stjórnar, Toshizo Watanabe, stofnandi sjóðsins, og Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.
 
Watanabe, sem fæddur er í Japan, er frumkvöðull og einn af aðstandendum Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Hann hlaut m.a. styrk til skiptináms við Brandeis-háskólann í Massachusettes í Bandaríkjunum og kynntist þar m.a. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms og vildi endurgjalda aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, gamla skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla. Úr varð að Watanabe-sjóðurinn var settur á stofn við Háskóla Íslands árið 2008. Þess má geta að Watanabe hlaut í fyrra riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til eflingar fræða- og menntasamstarfi milli Íslands og Japans.
 
28 fá styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum
 
Styrkþegar úr sjóðnum í ár eru samtals 28 talsins og skiptast styrkirnir svo:
 
Grunnnemar úr Háskóla Íslands á leið til Japans:
 
Áshildur Friðriksdóttir, BS-nemi í rafmagns- og tölvunarverkfræði, sem er á leið í skiptinám við Waseda-háskóla.
 
Eygló Fjóla Jóhannesdóttir, BA-nemi í japönsku, sem er á leið í skiptinám við Nagoya-háskóla.
 
Friðrik Valur Elíasson, BS-nemi í vélaverkfræði, sem er á leið í skiptinám við Kyushu-háskóla.
 
Gréta Ottósdóttir, BA-nemi í japönsku, sem er á leið í skiptinám við Iwate-háskóla.
 
Guðbjörn Arnarson, BS-nemi í efnaverkfræði, sem er á leið í skiptinám við Sophia-háskóla.
 
Martyna Baranowska, BA-nemi í japönsku, sem er á leið í skiptnám við við Kyushu-háskóla.
 
Tristan Ferrua Edwardsson, BS-nemi í stærðfræði, sem er á leið í skiptinám við Kyoto-háskóla.
 
Viktor Ellingsson, BS-nemi í efnafræði, sem er á leið í skiptinám við Kyoto-háskóla.
 
Grunnnemar frá Japan á leið í Háskóla Íslands:
 
Anna Kodama, BA-nemi við Gakushuin-háskóla, sem mun nema stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
 
Ayaka Mori, BA-nemi við Nagoya-háskóla, sem mun nema enska málfræði við Háskóla Íslands.
 
Vísindamenn og framhaldsnemar við Háskóla Íslands sem fá stuðning til náms og rannsóknarferða:
 
Björn Viðar Aðalbjörnsson, lektor í matvælafræði, vegna rannsóknarferðar til Nagoya-háskóla.
 
Dagur Andri Hjaltalín, MS-nemi í lyfjafræði, vegna rannsóknarferðar til Tokyo Institute of Technology.
 
Eiríkur Smári Sigurðsson, sérfræðingur og rannsóknastjóri á Hugvísindasviði, vegna rannsóknarferðar til Kyoto-háskóla.
 
Guðrún Theódórsdóttir, dósent í annarsmálsfræðum, vegna rannsóknarferðar til Kobe-háskóla.
 
Helga Rut Guðmundsdóttir, prófessor í tónlistarfræði, vegna rannsóknarferðar til Hokkaido-háskóla.
 
Hikari Tsutsui, MA-nemi í félagsfræði, fær stuðning til náms við Háskóla Íslands.
 
Ingibjörg Björgvinsdóttir,  MS-nemi í umhverfis- og auðlindafræði, til rannsóknasiglinga á vegum Tokyo University of Marine Science and Technology.
 
Kenneth Curtis Steele, MS-nemi í umverfis- og auðlindafræði, vegna rannsóknarferðar  til Kyoto-háskóla.
 
Mariko Komaru, MS-nemi í ferðamálafræði, fær stuðning til náms við Háskóla Íslands.
 
Polina Moroz, MS-nemi í umhverfis- og auðlindafræði, vegna rannsóknarferðar til Kyoto-háskóla.
 
Vincent Merida, MS-nemi í umhverfis- og auðlindafræði, vegna rannsóknarferðar til Kyoto-háskóla.
 
Japanskir vísindamenn og nemar á leið í rannsóknarheimsókn til Háskóla Íslands:
 
Hiroyuki Hoshi, prófessor í jarðfræði við Aichi University of Education.
 
Hugang Han, prófessor í stærðfræði við Prefectural University of Hiroshima.
 
Jun Shiota, doktorsnemi í stjórnmálafélagsfræði við Kobe-háskóla.
 
Koreharu Kurahara, MA-nemi í hamfarafræðum við Kyoto-háskóla.
 
Narihira Takada, doktorsnemi í sagnfræðilegum málvísindum við Tókíóháskóla.
 
Shin-ichi Horike, prófessor í sameindaerfðafræði við Kanazawa-háskóla.
 
Takashi Iwata, nýdoktor í vistfræði sjávardýra við Tókíóháskóla.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is