Háskóli Íslands

Watanabe styrktarsjóðurinn við Háskóla Íslands

English version.

Watanabe-styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 með rausnarlegri gjöf Hr. Toshizo (Tom) Watanabe með það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Watanabe sjóðurinn veitir íslenskum háskólanemum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska nemendur og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands..

Annars vegar er um að ræða styrki til námsdvalar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsstigi við Háskóla Íslands eða japanska háskóla og hins vegar ferða- og dvalarstyrki til nýdoktora, kennara og fræðimanna milli háskóla í Japan og Háskóla Íslands. Nemendur og akademískir starfsmenn af öllum fræðasviðum geta sótt um styrkina.  

Hr. Tozisho (Tom) Watanabe stofnandi sjóðsins er formaður Toshizo Watanabe Foundation og stofnandi og fyrrverandi framkvæmdastjóri Nikkel Global fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Hr. Watanabe hlaut styrk frá Wien International Scholarship Program (WISP) til náms við Brandeis háskólann í Massachusetts í Bandaríkjunum. Í Brandeis kynntist hann Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra, og tókst með þeim góð vinátta. Hr. Watanabe er ævinlega þakklátur fyrir námsstyrkinn og þau tækifæri sem menntun hans í Bandaríkjunum veitti honum.  Hann vildi því koma á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Watanabe hafði samband við Geir H. Haarde, sinn gamla skólabróður, með það í huga að stofna styrktarsjóð við íslenskan háskóla og efla tengsl Íslands og Japan. Í kjölfarið var Watanabe-styrktarsjóðurinn við Háskóla Íslands stofnaður árið 2008.  Stofnféð var 3 milljónir bandaríkjadala og árið 2018 bætti Hr. Watanabe veglegri peningagjöf við sjóðinn að upphæð tveimur milljónum bandaríkjadala.

Stjórn sjóðsins er skipuð þremur fulltrúum til þriggja ára. Rektor Háskóla Íslands skipar formann sjóðsins, Toshizo Watanabe og Geir Haarde, eða fulltrúar afkomenda þeirra, einn stjórnarmann hvor.

Stjórn sjóðsins skipa dr. Kristín Ingvarsdóttir, lektor við Mála- og menningardeild og formaður stjórnar, Toshizo "Tom" Watanabe, stofnandi sjóðsins og Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra.

Umsóknarfrestur um styrki í sjóðinn er 15. janúar ár hvert (eða næsta virka dag ef umsóknarfrestur er á almennum frídegi). Umsóknir og fylgigögn skal senda í tölvupósti á watanabe@hi.is. Athugið að umsóknir og fylgigögn eiga að vera á ensku.

Fyrirspurnum um Watanabe styrktarsjóðinn skal beint á netfangið watanabe@hi.is eða í síma 525-4311.

 

Hér má að lesa reynslusögur og frásagnir fyrrverandi styrkhafa Watanabe sjóðsins við Háskóla íslands.

Reynslusögur

Umsóknareyðublað (.doc).

Skipulagsskrá (.pdf).

Fréttir

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is