Háskóli Íslands

Námsstyrkir til blindra og sjónskertra stúdenta

Tveir námsstyrkir hafa verið veittir úr Þórsteinssjóði til blindra og sjónskertir stúdentar við Háskóla Íslands. Þetta er í níunda skipti sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum og nemur upphæð styrkjanna  samtals hálfri milljón króna.
 
Megintilgangur Þórsteinssjóðs er að styrkja blinda og sjónskerta stúdenta til náms við Háskóla Íslands. Enn fremur er sjóðnum ætlað að efla rannsóknir sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn og afleiðingum hennar og fjölga þannig tækifærum blindra og sjónskertra til að auðga og efla líf sitt. Sérstök áhersla er lögð á styrki til rannsókna í félags- og hugvísindum sem falla að tilgangi sjóðsins.
 
Námsstyrki í ár hljóta tveir nemendur, þær Sigríður Hlín Jónsdóttir, M.Ed. nemi í heilsueflingu og heimilisfræði til kennsluréttinda á Menntavísindasviði, og Eliona Gjecaj, doktorsnemi í fötlunarfræði á Félagsvísindasviði. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu.
 
Háskóli Íslands hefur lagt áherslu á að efla tækifæri blindra og sjónskertra nemenda jafnt sem annars fólks með fötlun til náms við skólann og samhliða unnið að því að tryggja að þeir njóti jafnræðis á við aðra nemendur. Þórsteinssjóður styður sannarlega við þau markmið.
 
Sjóðurinn var stofnaður af Blindravinafélagi Íslands 6. desember 2006 og er sá fyrsti sinnar tegundar hérlendis. Tilkoma hans eykur möguleika blindra og sjónskertra stúdenta til háskólanáms. Hlutverk og tilgangur Þórsteinssjóðs helgast af æviverki Þórsteins Bjarnasonar sem fæddist 3. desember árið 1900. Hann stofnaði Blindravinafélag Íslands 24. janúar 1932 og var það fyrsti vísir að félagi til hjálpar fólki með fötlun hér á landi. Þórsteinn helgaði líf sitt blindum og sjónskertum einstaklingum á Íslandi á síðustu öld án þess að þiggja nokkru sinni laun fyrir heldur lagði félaginu þvert á móti til fé úr eigin vasa.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið skólanum allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is