Stjórn Þórsteinssjóðs auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Tilgangur sjóðsins er í fyrsta lagi að styrkja blinda og sjónskerta stúdenta til náms við Háskóla Íslands. Í öðru lagi er markmið sjóðsins að efla rannsóknir sem aukið geta þekkingu á lífi og aðstæðum blindra og sjónskertra einstaklinga, einkum í félags- og hugvísindum.
Umsóknarfrestur er til 6. nóvember 2023.
Í ár verða veittir námsstyrkir til blindra eða sjónskertra stúdenta sem stunda nám við Háskóla Íslands á skólaárinu 2023-2024. Einnig verða veittir styrkir til rannsókna sem beinast að félagslegum og menningarlegum aðstæðum sjónskertra og blindra einstaklinga.
Heildarfjárhæð úthlutaðra styrkja er að hámarki 10 milljónir króna.
Í umsókn um námsstyrk þurfa eftirtalin atriði að koma fram:
1. Nafn umsælkjanda, kennitala, heimilisfang, sími og netfang.
2. Helstu atriði úr náms- og/eða starfsferli umsækjanda og námsárangur.
3. Hvaða nám viðkomandi stundar við Háskóla Íslands.
4. Meðmæli frá kennurum og/eða atvinnurekendum.
5. Áætlun um námsframvindu.
6. Hámarkslengd umsóknar um námsstyrk er þrjár síður.
Í umsókn um rannsóknarstyrki þurfa eftirtalin atriði að koma fram:
1. Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og netfang.
2. Helstu atriði úr náms- og starfsferli og ritaskrá umsækjanda (hámark 3 blaðsíður).
3. Heiti rannsóknarverkefnis, markmið og vísindalegt gildi.
4. Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, 2-3 málsgreinar, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar, hljóti verkefnið styrk.Veigameiri lýsing á rannsóknaverkefni að hámarki ein blaðsíða.
5. Tímaáætlun, fjárhagsáætlun og helstu samstarfsaðilar verkefnisins.
6. Til hvaða þáttar verkefnis sótt er um styrk fyrir.
7. Annar fjárhagslegur stuðningur við verkefnið
8. Meðmæli frá leiðbeinanda, sé umsækjandi í rannsóknatengdu námi.
Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn Þórsteinssjóðs áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti.
Umsóknum skal skila sem viðhengi á netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sjodir@hi.is.
Áætlað er að úthluta styrknum 4. desember 2023.
Frekari upplýsingar um styrkveitingu og úthlutun er að finna á sjóðavef HÍ. Einnig hjá Helgu Brá Árnadóttur, verkefnastjóra Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 525-5894.
Um sjóðinn
Þórsteinssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands 6. desember 2006 af Blindravinafélagi Íslands til minningar um Þórstein Bjarnason, stofnanda Blindravinafélagsins. Tilgangur Þórsteinssjóðs helgast af æviverki Þórsteins, að efla líf blindra og sjónskertra einstaklinga á Íslandi. Tilkoma Þórsteinssjóðs hefur aukið möguleika blindra og sjónskertra stúdenta til að helga sig háskólanámi, en þetta er í ellefta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum.