Ellefu nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands og þrír nemendur og starfsmenn við japanska háskóla hljóta styrki úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands í ár. Styrkirnir munu nýtast þeim bæði til skiptináms og eflingar rannsóknasamstarfs milli Háskóla Íslands og japanskra háskóla. Styrkjunum var úthlutað að viðstöddum Toshizo Watanabe, stofnanda sjóðsins, í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær og nema þeir samtals rúmum ellefu milljónum króna.
Alls hefur verið úthlutað sex sinnum úr Watanabe-styrktarsjóðnum en hann var stofnaður árið 2008 til þess að efla tengsl íslensks og japansks fræðasamfélags.
Styrkþegar árið 2016 eru:
Elena Olekseevna Zobova, BA-nemi í japönsku máli og menningu, sem hlýtur styrk til skiptináms við Waseda-háskóla í Tókýó.
Rakel Sylvía Björnsdóttir, BA-nemi í japönsku máli og menningu, sem hlýtur styrk til skiptináms við International Christian University í Tókýó.
Unnur Bjarnadóttir, nemi í japönsku máli og menningu, latínu og þýðingarfræðum, sem fær styrk til náms við Nagoya-háskóla í samnefndri borg.
Anna Maria Toma, BS-nemi í læknisfræði, sem hlýtur styrk til námsdvalar við læknadeild Hokkaido-háskóla til að vinna að BS-verkefni sínu. Anna er jafnframt fyrsti læknaneminn frá Háskóla Íslands sem það gerir.
Marta Ólafsdóttir, kandídatsnemi í læknisfræði, sem fær styrk til eins mánaðar starfsþjálfunar við háskóla í Japan sem býður upp á læknisfræði og tengist Alþjóðasamtökum læknanema (IFMSA).
Ragnheiður Kristín Pálsdóttir, MA-nemi í safnafræðum, sem hlýtur styrk til hálfs mánaðar dvalar í Japan til þess að undirbúa sýningu japanska ljósmyndarans Ariko Inaoka hér á landi en áætlað er að hún fari fram á árinu 2017.
Jovana Alkalaj, doktorsnemi í jarðvísindum, sem hlýtur styrk til eins mánaðar rannsóknardvalar við Shinshu-háskóla í Japan.
Megumi Nishida, doktorsnemi í menntavísindum, sem hlýtur styrk til eins mánaðar rannsóknardvalar við Kennaraháskóla Hokkaido með það fyrir augum að efla rannsóknasamstarf milli skólans og Háskóla Íslands á sviði menntavísinda.
Uta Reichardt, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræðum, sem fær styrk til þriggja mánaða dvalar við Rannsóknamiðstöð um hamfarastjórnun (Disaster Prevention Research Institute) í Kyoto.
Irma Erlingsdóttir, dósent við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda og forstöðumaður Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem hlýtur styrk til að sækja ráðstefnuna World Assembly for Women við Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tókýó ásamt því að heimsækja tvo japanska háskóla þar sem hún mun flytja erindi tengd kynjafræði og leita rannsóknasamstarfs.
Ruth Mary Shortall, nýdoktor í umhverfis- og auðlindafræði, sem fær styrk til mánaðardvalar í Tókýóháskóla þar sem hún hyggst kynna sér stefnumörkun í nýtingu jarðvarma í Japan og bera saman við stefnumörkun í málaflokknum hér á landi.
Yui Tamitani, BA-nemi í hnattrænum fræðum við International Christian University í Tókýó, sem hlýtur styrk til skiptináms við Háskóla Íslands þar sem hún hyggst leggja stund á íslensku sem annað mál.
Fumiko Itoh, dósent í sameindalíffræði við Lyfjafræði- og lífvísindaháskóla Tókýóborgar, sem hlýtur styrk til tveggja vikna rannsóknadvalar við Lífvísindasetur Háskóla Íslands. Þar hyggst hún vinna með Guðrúnu Valdimarsdóttur, lektor við Læknadeild, og kynna sér stofnfrumurannsóknir við setrið.
Yuhiji Yamamoto, dósent í jarðeðlisfræði við Koichi-háskóla, sem fær styrk til tveggja vikna dvalar á Íslandi til rannsóknastarfa sem snúa að breytingum á segulsviði jarðar og til að leita rannsóknasamstarfs á þessu sviði.
Um Watanabe-styrktarsjóðinn við Háskóla Íslands
Watanabe-styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 og hefur það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Sjóðurinn veitir íslenskum stúdentum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands.
Toshizo Watanabe, sem lagði fram stofnfé sjóðsins, er frumkvöðull og einn af aðstandendum Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Á yngri árum var hann skiptinemi við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum og kynntist þar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Við undirritun stofnskrár sjóðsins sagðist Watanabe vilja endurgjalda aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, gamla skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
Toshizo Watanabe ávarpaði styrkþega og aðra gesti við athöfnina í gær. Hann situr í stjórn styrktarsjóðsins ásamt Má Mássyni, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, og Ingimundi Sigfússyni, cand.jur. og fyrrverandi sendiherra í Japan.