Tveir læknar hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis fyrir árangur í rannsóknum. Orri Þór Ormarsson, sérfræðingur í barnaskurðlækningum, fær viðurkenningu fyrir rannsóknir sem snúa að hægðatregðu í börnum og Valýr Stefánsson Thors, sérfræðingur í barnalækningum og smitsjúkdómum barna, fær verðlaun fyrir rannsóknir á veiru- og bakteríusýkingum í nefkoki barna. Verkefnin hafa þegar skilað afar áhugaverðum niðurstöðum en heildarupphæð verðlaunanna nemur 1,2 milljónum króna. Báðir verðlaunahafarnir starfa við Barnaspítala Hringsins.
Þetta er í áttunda skipti sem veittar eru viðurkenningar úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis en sjóðurinn hefur það markmið að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga.
Orri Þór Ormarsson hefur kannað öryggi og hægðalosandi áhrif stíla, sem innihalda fríar fitusýrur (e. free fatty acids) fengnar úr fiskiolíu, í meðferð við hægðatregðu hjá börnum og til tæmingar fyrir stutta ristilspeglun. Hægðatregða er ein algengasta orsök kviðverkja hjá börnum og er algengasta meðferðin að gefa lyf til inntöku en stundum eru lyf um endaþarm gefin samhliða. Skortur er á klínískum rannsóknum á þeim endaþarmslyfjum sem börn fá og sama má segja um rannsóknir á úthreinsun fyrir bugðuristils- og endaþarmsspeglun, en ekki er vitað hvaða meðferð til úthreinsunar er best.
Verkefnið fól í sér þrjár klínískar rannsóknir á börnum og fullorðnum og eina faraldsfræðilega rannsókn á börnum með hægðatregðu. Hundrað og sextíu manns tóku þátt í rannsóknunum sem sýndu að stílarnir, sem til skoðunar voru, þolast vel og virka til meðferðar á börnum með hægðatregðu og til úthreinsunar fyrir speglanir í bugðuristli og endaþarmi. Faraldsfræðileg rannsókn leiddi í ljós að 40% barna með hægðatregðu fengu aftur hægðatregðu, 27% þeirra þurftu aftur að leita læknisaðstoðar og 33% fengu lyf gefið um endaþarm á ný. Niðurstaða rannsóknanna sýnir jafnframt að lífsstílsþættir tengjast hægðatregðu í börnum.
Orri Þór Ormarsson er barnaskurðlæknir við Barnaspítala Hringsins. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1985 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1993. Orri Þór stundaði sérnám í almennum skurðlækningum og barnaskurðlækningum við háskólasjúkrahúsið í Þrándheimi í Noregi á árunum 1997–2003. Að loknu sérnámi í Noregi réð Orri sig til starfa sem sérfræðingur í barnaskurðlækningum við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og starfaði þar frá árinu 2003 til 2006 er hann hóf störf á Barnaspítalanum. Orri Þór hefur stundað rannsóknir sínar á Íslandi um nokkurra ára skeið og varði doktorsritgerð sína árið 2016. Orri Þór er kvæntur Guðrúnu Finnsdóttur félagsráðgjafa.
Í doktorsritgerð sinni, „The effects of viral infections on upper respiratory tract bacterial colonisation in children - observational and interventional studies“ fjallar Valtýr Stefánsson Thors um veirusýkingar í efri loftvegum hjá ungum börnum og hvernig þær hafa áhrif á bakteríur sem jafnan eru til staðar í nefkokinu. Við rannsóknirnar var notast við svokallaða magnmælanlega kjarnsýrumögnun (polymerase chain reaction - PCR) til að greina veirur og sex bakteríutegundir og þéttni þeirra.
Í rannsóknunum var samtals rúmlega 1300 sýnum safnað frá 312 börnum. Helstu niðurstöður voru þær að tíðni bakteríanna í nefkoki var að mestu leyti óbreytt við veirusýkingar en að þéttni baktería var nánast alltaf meiri í sýnum þar sem líka fannst veirusýking. Þessi aukna þéttni stuðlar líklega að auknu smiti milli barna, sérstaklega þar sem samneyti þeirra er náið. Þessar niðurstöður gætu varpað ljósi á samspil ónæmiskerfisins, veirusýkinga og baktería.
Valtýr varði doktorsritgerð sína við Háskólann í Bristol í maí 2016. Leiðbeinandi Valtýs var Adam Finn, prófessor við umræddan háskóla, og andmælendur voru Andrew Pollard, prófessor við háskólann í Oxford, og Lindsay Nicholson, lektor við Háskólann í Bristol.
Valtýr lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1995 og læknaprófi frá Háskóla Íslands 2003. Hann stundaði sérnám í almennum barnalækningum með smitsjúkdóma sem undirsérgrein í Hollandi og Bretlandi frá 2006–2014. Frá árinu 2014 hefur hann starfað sem sérfræðingur í barnalækningum og barnasmitsjúkdómum við Barnaspítala Hringsins og sem aðjunkt við Háskóla Íslands frá 2016. Hann er giftur Eddu Margréti Guðmundsdóttur sálfræðingi.
Um Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar læknis árið 2000 með veglegri peningagjöf til minningar um Óskar sem var fóstri hans. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.
Óskar Þórðarson barnalæknir brautskráðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1927, lærði fæðingahjálp í Danmörku síðar sama ár og stundaði sérnám í barnalækningum í Austurríki og Þýskalandi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hann stofnaði læknastofu í Reykjavík árið 1930 og rak hana til dauðadags árið 1958. Samhliða var Óskar skólalæknir Austurbæjarskóla og Laugarnesskóla, læknir barnaheimilisins Sumargjafar og eftirlitslæknir við barnaheimili Reykjavíkur. Óskar kvæntist Guðrúnu Sveinsdóttur frá Hrauni á Skaga, móður Bents, árið 1928.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.