Háskóli Íslands

Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar læknis

Markmið sjóðsins er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga.

Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar 25. september 2000 með veglegri peningagjöf til minningar um fóstra sinn, Óskar Þórðarson barnalækni, f. 14. júní 1897, d. 25. september 1958.

Óskar Þórðarson barnalæknir fæddist 1897, brautskráðist frá Læknadeild Háskóla Íslands 1927, lærði fæðingahjálp í Danmörku 1927 og stundaði sérnám í barnalækningum í Austurríki og Þýskalandi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hann stofnaði læknastofu í Reykjavík árið 1930 og rak hana til dauðadags árið 1958. Samhliða var Óskar skólalæknir Austurbæjarskólans og Laugarnesskólans, læknir barnaheimilis Sumargjafar og eftirlitslæknir við barnaheimili Reykjavíkur. Óskar kvæntist Guðrúnu Sveinsdóttur frá Hrauni á Skaga, móður Bents, stofnanda verðalaunasjóðsins, árið 1928.

Rektor ákveður úthlutun úr sjóðnum hverju sinni og hefur um það frjálsar hendur. Þó skal hann leita samráðs við forseta Læknadeildar.

Sjóðurinn er einn þriggja sjóða sem Bent hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir eru Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, til styrktar rannsóknum á sviði lyfjafræði, og Styrktarsjóður Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á sviði eineltis.

Það er ósk gefanda að verðlaunum sé úthlutað við hátíðlega opinbera athöfn og þess þá getið í hverra minningu þau eru veitt, og fram tekið hverjum veitt, upphæð verðlauna og framlag verðlaunahafa.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá (.pdf).

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is