Háskóli Íslands

Metfjöldi fær styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum

Fjórtán nemendur og vísindamenn við Háskóla Íslands halda til Japans til náms og rannsókna og von er á tíu nemendum og vísindamönnum frá japönskum háskólum hingað til lands í sömu erindagjörðum. Hóparnir eiga það sameiginlegt að hafa hlotið styrki úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands sem styður gagnkvæm fræðatengsl Íslands og Japans. Um metfjölda styrkhafa er að ræða en sjóðurinn byggist á einni stærstu peningagjöf sem einstaklingur hefur fært Háskóla Íslands.
 
Styrkjum var úthlutað úr Watanabe-styrktarsjóðnum í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 21. maí að viðstöddum stofnanda sjóðsins, Toshizo Watanabe. Alls hafa 66 nemendur og vísindamenn hlotið styrki úr sjóðnum frá því að fyrst var úthlutað úr honum árið 2011 og 24 bætast í þann hóp nú, sem er metfjöldi styrkhafa. Mögulegt var að veita svo marga styrki í kjölfar myndarlegs viðbótarframlags í sjóðinn frá Tozhizo Watanabe á síðasta ári, sem nam tveimur milljónum bandaríkjadala, og er höfuðstóll hans nú fimm milljónir dala, jafnvirði um 600 milljóna króna.
 
Sem fyrr segir er Watanabe-styrktarsjóðnum ætlað að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans en fyrir tilstilli hans hafa stúdentar við Háskóla Íslands fengið tækifæri til að stunda nám við japanska háskóla og japanskir stúdentar sótt nám við Háskólann. Sjóðurinn hefur einnig styrkt fræðimenn við HÍ til rannsóknardvalar í Japan og sömuleiðis starfssystkin við japanska háskóla til dvalar hér og þannig stuðlað að auknu rannsóknasamstarfi milli Íslands og Japans á ýmsum fræðasviðum.
 
Samanlögð styrkupphæð að þessu sinni nemur 12 milljónum króna.
 
Toshizo Watanabe er frumkvöðull og einn af aðstandendum Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Í skiptinámi sínu við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum kynntist hann Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Watanabe vildi endurgjalda aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, gamla skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
 
Styrki til námsdvalar í Japan hljóta:
Finnur Helgi Malmquist, nemi í verkfræðilegri eðlisfræði og japönsku, til náms við Sophia University.  
 
Haukur Júlíus Arnarson, BA-nemi í japönsku máli og menningu, sem mun nema við Kansai Gaidai University.
 
Steinar Darri Þorgilsson, BS-nemi í tölvunarfræði, sem mun nema við Waseda-háskóla.
 
Katrín Kjartansdóttir, BS-nemi í líffræði, og Kristlaug Inga Sigurpálsdóttir, nemi í geislafræði og japönsku, sem nema munu við Kyoto-háskóla.
 
Gesina Kernchen, BA-nemi í japönsku máli og menningu, sem dvelja mun við Kyushu-háskóla.
 
Helgi Björn Hjartarson og Saga Unnsteinsdóttir, BA-nemar í japönsku máli og menningu, sem sækja munu nám við Seinan Gakuin háskóla.
 
Svandís Ólafsdóttir, BA-nemi í japönsku máli og menningu, sem nema mun við Nagoya-háskóla í Japan.
 
Styrki til námsdvalar við Háskóla Íslands hljóta:
Daichi Yamaguchi, BA-nemi í fornleifafræði við Kyoto-háskóla.
 
Hana Ishii, BS-nemi í efnafræði við International Christian University.
 
Hikari Tsutsui, BA-nemi í félagsfræði og starfsþróun við State University of New York og Kansai Gaidai háskóla.
 
Miu Fukuda, nemi í Asíu- og Kyrrahafsfræðum við Ritsumeikan Asia Pacific University.
 
Miyako Irie, BA-nemi í félagsfræði við Kwansei Gakuin háskóla.
 
Saori Fukusawa, BA-nemi í ensku við Háskóla Íslands.
 
Yuriko Kobayashi, BS-nemi í umhverfisfræði við International Christian University.
 
Styrki til rannsóknadvalar í Japan hljóta:
Edda Óskarsdóttir, aðjunkt við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands, sem dvelja mun við Hokkaido-háskóla.
 
Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Félagfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, sem dvelja mun við Tókíóháskóla.
 
Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands, sem dvelja mun við Hokkaido-háskóla.
 
Milan Chang Guðjónsson, dósent í öldrunarfræðum við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands, sem dvelja mun við Tsukuba-háskóla.
 
Carlos Argáez García, nýdoktor í stærðfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, sem  dvelja mun við Héraðsháskólann í Hiroshima.
 
Styrki til rannsóknardvalar við Háskóla Íslands hljóta:
Jun Shiota, doktorsnemi í pólitískri félagsfræði við Kobe-háskóla.
 
Koo Bonjun, doktorsnemi í skipulagi þéttbýlissvæða við Kyoto-háskóla.
 
Oliver Trinidad Belarga, dósent í  sérkennslu við Kansai Gaida háskóla.
 
Nánar um Watanabe-styrktarsjóðinn við Háskóla Íslands
Watanabe-styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 og hefur það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans.  
 
Toshizo Watanabe, sem lagði fram stofnfé sjóðsins, er frumkvöðull og einn af aðstandendum Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Í skiptinámi sínu við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum kynntist hann Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Watanabe vildi endurgjalda aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, gamla skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
 
Toshizo Watanabe situr í stjórn sjóðsins ásamt ásamt Má Mássyni, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands sem er formaður stjórnar, og dr. Kristínu Ingvarsdóttur, dagskrárstjóra í Norræna húsinu. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is