Bjarni Karlsson, prestur við Haf - sálgæslu- og sálfræðiþjónustu, hefur hlotið styrk úr Starfssjóði Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands til að bregðast við athugasemdum andmælenda við doktorsritgerð sem hann mun verja nú í vor. Styrkupphæðin er 300.000 kr.
Rannsóknarverkefni Bjarna ber heitið „Vistkerfisvandi og fátækt - Einkenni lífvænlegrar heimsmyndar, mannskilnings og fátæktarhugtaks í fjölmenningarsamfélagi síðnútímans”. Í ritgerðinni eru dregnir fram og gagnrýndir ýmsir ágallar nútímahugsunar um fátækt, heiminn og stöðu mannsins í honum. Borin er saman hnattræn orðræða veraldlegra og trúarlegra aðila og rök færð fyrir sameiginlegum skilningi um gildi þess að leggja niður eindahyggju og mannmiðlægni en taka upp tengslahyggju og lífmiðlægni í heimsmenningunni. Með samanburði á völdum stefnuskjölum, frá Sameinuðu þjóðunum annars vegar og Frans páfa hins vegar, eru leidd rök að því að engin neikvæð spenna ríki í hnattrænni orðræðu milli veraldlegrar og kristinnar umfjöllunar um vistkerfisvanda og fátækt. Orðræða SÞ hefur snúist frá mannmiðlægni til lífmiðlægni á umliðnum fimmtíu árum og framsetning páfa er á sömu nótum. Höfundur heldur því fram að guðmiðlæg nálgun kristninnar geti falið í sér þá lífmiðlægu og hlúð að henni í menningunni, m.a. með því að líta á vistkerfið sem líkama Guðs. Í rannsókninni er spurt hver séu meginatriði í siðfræði þar sem fátækt er forðað og almannahagur er leiðarljós. Tillögur að svari eru lagðar fram um leið og gildi hins lýðræðislega samtals er undirstrikað. Í stað einhliða áherslu á lög og reglur í meintu hlutlausu almannarými nútímasamfélagsins er mælt með lýðræðislegri og margþættri samræðu þar sem ólíkar hefðir og menningarheimar mætist og haldi hvert öðru ábyrgu í gagnkvæmri hlustun og virðingu.
Bjarni Karlsson lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og gerðist þá aðstoðarprestur við fangelsi landsins uns hann tók við sem sóknarprestur í Vestmannaeyjum. Lengst hefur Bjarni gegnt embætti sóknarprests við Laugarneskirkju í Reykjavík en umliðin fimm ár hefur hann rekið eigin sálgæslustofu og flutt ýmis fræðsluerindi samhliða doktorsnámi.
Starfssjóður Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands var stofnaður af Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund með gjafabréfi 28. desember 1982 í tilefni af 60 ára afmæli heimilisins. Sjóðurinn er til minningar um stofnendur þess, Sigurbjörn Á. Gíslason, cand. theol., Flosa Sigurðsson trésmíðameistara, Harald Sigurðsson verslunarmann, Júlíus Árnason kaupmann og Pál Jónsson verslunarstjóra; enn fremur þá séra Halldór Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði, séra Lárus Halldórsson fríkirkjuprest og séra Pál Þórðarson, prest í Njarðvík.
Tilgangur sjóðsins er að stuðla að hvers konar starfsemi Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Auk þess má nefna fyrirlestrahald og námsstefnur, heimboð erlendra gesta og greiðslu ferðapeninga til kennara Guðfræðideildar og hvaðeina sem verða má að gagni fyrir starfsemi stofnunarinnar á hverjum tíma. Samkvæmt skipulagi Háskóla Íslands frá því í febrúar 2008 er Guðfræðideild ekki lengur til en deildin heitir nú Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og heyrir undir Hugvísindasvið.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.