Háskóli Íslands

Læknanemar fá styrki til rannsókna í Bandaríkjunum og Malaví

Fimm læknanemar sem unnu að þriðja árs rannsóknaverkefni í læknisfræði við erlendar rannsókna- og menntastofnanir á vormisseri 2020 fengu styrki úr nýstofnuðum Menntasjóði Læknadeildar til verkefnanna. Heildarstyrkupphæð var tæpar 1,2 milljónir króna.
 
Menntasjóður Læknadeildar var stofnaður fyrr á árinu  og hefur það markmið að styðja nemendur í Læknadeild til náms, rannsókna eða símenntunar erlendis ásamt því að  styrkja fyrirlestrahald eða fræðslustarf í læknavísindum hérlendis.
 
Fimm umsóknir um styrki bárust í ár og hlutu þær allar stuðning. Tveir styrkir að upphæð 350.000 krónur hvor komu í hlut umsækjenda sem vinna  10 vikna rannsóknarverkefni annars vegar við Harvard-háskóla og hins vegar Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Að auki voru veittir þrír minni styrkir, að upphæð 150.000 krónur hver, til umsækjenda sem unnu að rannsóknarverkefnum í Malaví í Afríku í 4-5 vikur.
 
Styrki til 10 vikna rannsóknarverkefna erlendis hlutu:
 
Arnar Einarsson  vann lokaverkefnið „Association of Lowering Default Pill Counts in Electronic Medical Record systems With Postoperative Opioid Prescribing After Cardiac Surgery“ við Yale-háskólasjúkrahúsið í New Haven í Bandaríkjunum. Leiðbeinandi Arnars var Arnar Geirsson hjartaskurðlæknir.
 
Misnotkun ópíóða er stórt heilbrigðisvandamál í Bandaríkjunum. Ópíóðafíkn byrjar oft eftir ávísun ópíóða vegna heilsufarsvandamála en stjórnun sársauka eftir skurðaðgerðir er mikilvæg. Vegna þessa faraldurs hefur Yale-New Haven spítalinn undanfarin tvö ár minnkað sjálfgefinn pillufjölda ópíóða sem læknar sjá í rafrænum kerfum þegar þeir ávísa lyfjum til sjúklinga sem verið er að útskrifa. Breytingarnar hafa haft það í för með sér að færri pillum er ávísað á útskrifaða sjúklinga eftir aðgerðir. Ekki er vitað hvort þessar breytingar hafi sömu áhrif á legudeildarsjúklinga sem hafa farið í aðgerð þar sem inngrip er mikið. Markmiðið var að rannsaka hvort að þessi kerfisbreyting á sjálfgefnum fjölda ávísaðra ópíóða leiddi til þess að færri pillum ópíóða yrði ávísað eftir hjartaskurðaðgerðir.
 
Hjördís Ásta Guðmundsdóttir sem vann að rannsókninni „Long-term and extreme outcomes after myomectomy at time of future pregnancy and delivery“ við Harvard Medical School undir leiðsögn Jóns Ívars Einarssonar prófessors.
Markmið rannsóknarinnar varr að lýsa samvöxtum, opnun legvöðva og endurkomu vöðvahnúta í legi við keisaraskurð eftir tegund vöðvahnútabrottnámsaðgerðar. Sléttvöðvahnútar (e. uterine fibroids)  í legi eru algengustu góðkynja fyrirverðir kvenna. Þeir hafa áhrif á 30-50% kvenna á barneignaraldri og 70-80% kvenna mega búast við sléttvöðvahnútum í legi á lífsleiðinni. Hnútarnir eru oft einkennalausir og illkynjun sjaldgæf en þeir geta leitt til þrýstings, sársaka, blóðleysis, breytinga á blæðingum og ófrjósemi. Rannsóknin tók til vöðvahnútabrottnámsaðgerðar 1.532 kvenna frá árinu 2009 til 2016 á Brigham and Women‘s hospital í Boston, háskólasjúkrahúsi Harvard Medical School. 
 
Aðgerðirnar voru framkvæmdar með opnum kviðarholsskurði og holsjáraðgerð eða aðgerðarþjarka. Í rannsóknarhópnum reyndust vera 291 konur sem undirgengust síðar keisaraskurð á tengdum spítölum og 16 sem fæddu um leggöng. 
 
Styrki til að vinna 4-5 vikna rannsóknarverkefni á Magochi-héraðssjúkrahúsinu í Malaví hlutu:
 
Eygló Dögg Ólafsdóttir sem vann að rannsókninni „Maternity services and ceasarean sections in Mangochi district Hospital, Malawi.“ Í verkefninu er fjallað um meðgöngu- og fæðingarþjónustu á sjúkrahúsinu Mangochi-héraði í Malaví á árunum 2015-2020. Gögn um flæði notenda meðgönguþjónustunnar voru greind, með áherslu á keisaraskurði og meginvandi þjónustunnar skilgreindur og gæði metin. Stuðst var við skráningar- og meðferðargögn auk viðtala við starfsmenn og mæður er nýta þjónustuna. Héraðið vinnur að heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna númer 3, sem snýr að heilsu og vellíðan, þar á meðal mælanlegri fækkun dauðsfalla vegna barnsburðar. Til að nálgast verkefnið vinnur héraðið eftir áætlun fyrir árin 2017-2021 með stuðningi á vegum íslenskrar þróunarsamvinnu. Rannsókn Eyglóar getur bæði nýst heilbrigðisþjónustu héraðsins og þróunarsamvinnu Íslands til að fylgjast með áhrifum áætlunarinnar. Auk leiðbeinenda frá Háskóla Íslands hafði Eygló meðleiðbeinanda frá spítalanum í Mangochi.
 
Ingunn Haraldsdóttir sem vann að rannsókninni „Neonatal Care in Mongochi District Hospital, Malawi.“ Það snýr að nýburaþjónustu í Mangochi-héraði í Malaví, en um tvö af hverjum fimm börnum, sem deyja fyrir fimm ára aldur, deyja innan mánaðar frá fæðingu. Því er þjónusta við nýbura eitt af forgangsmálum þeirra heimsmarkmiða sem miða að því að draga úr nýburadauða. Verkefnið styður auk þess við starf íslenskrar þróunarsamvinnu sem hefur um árabil snúist um að efla þjónustu við þessi börn í Mangochi-héraðinu. Verkefn Ingunnar fólst í því að skoða helstu áskoranir nýburaþjónustu í Malaví og leita leiða til að bæta hana og lækka þannig nýburadauða. Nýlega var opnuð ný deild fyrir nýbura í Mangochi og mat Ingunn áhrif hennar á velferð barnanna. Á fyrri hluta rannsóknartímabilsins var hún á vettvangi í Malaví í 5 vikur að safna viðeigandi gögnum og kynnast þjónustunni á Mangochi District Hospital af eigin raun.
 
Snædís Ólafsdóttir sem vann að BS-verkefninu “Preventive child health cervices.“ Í verkefninu er lögð áhersla á bólusetningar en jafnframt skoðað hvað hefur leitt til þess að tíðni barnadauða hefur lækkað og hvernig bæta megi þjónustu enn frekar. Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna snýst um að auka aðgengi að bólusetningum, sérstaklega gegn mislingum. Malaví er eitt af fáum löndum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar sem náði því markmiði að draga úr barnadauða um 2/3 árið 2015. Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands (ICEIDA) hefur stutt við uppbyggingu og þjónustu í Mangochi, þar á meðal uppbyggingu á nýrri álmu sjúkrahússins sem sinnir forvarnarþjónustu fyrir börn. Snædís dvaldi í Malaví í um 4 vikur og kynnti sér þá þjónustu sem er í boði ásamt því að safna gögnum, bæði með því að skoða skrár og taka viðtöl við heilbrigðisstarfsfólk og mæður. Einnig rýndi hún í komur barna á spítalann, bæði fyrir og eftir að nýja álman var byggð. 
Leiðbeinandi styrkhafanna þriggja í Malaví var Geir Gunnlaugsson, barnalæknir og prófessor í hnattrænni heilsu við Háskóla Íslands. 
 
Um sjóðinn
 
Menntasjóður Læknadeildar var stofnsettur á grundvelli safns sjóða sem tengjast Læknadeild og læknavísindum og voru sameinaðir til þess að styðja við nemendur í Læknadeild Háskóla Íslands og styrkja jafnframt fræðslu til að efla læknavísindi á Íslandi. Sjóðirnir eru: Legat Guðmundar Magnússonar prófessors og Katrínar Skúladóttur (1922), Minningarsjóður John McKenna Pearson (2001) og Starfssjóður Læknadeildar (1987).
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélagi.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is