Doktorsverkefni þriggja nemenda á Menntavísindasviði HÍ sem snerta leiklist í stærðfræðikennslu, áhrif næringarfræðslu á fæðuöryggi viðkvæmra hópa og áhrif leiðtoganáms Menntafléttu á kennsluhætti og stöðu skóla hafa hlotið styrk úr Styrktar- og rannsóknarsjóði Þuríðar J. Kristjánsdóttur. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Stakkahlíð við lok opnunarmálstofu Menntakviku, árlegrar ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Styrkhafar eru Ásgerður Harris Jóhannesdóttir, Brittany Marie Repella og Ingileif Ástvaldsdóttir.
Við mat á umsóknum voru markmið sjóðsins höfð til viðmiðunar; að styrkja doktorsnema á Menntavísindasviði, einkum vegna verkefna á sviði kennslumála. Verkefnin voru metin út frá markmiðum, fræðilegu nýmæli, hagnýtu gildi, tímaplani og kostnaðaráætlun. Heildarstyrkupphæð er 1.500.000 kr.
Ásgerður Harris hlýtur styrk fyrir verkefni sitt „Leiklist í stærðfræðikennslu“. Að mati dómnefndar felst fræðilegt nýnæmi í að kanna eðli og mögulega gagnsemi leiklistar í stærðfræðikennslu og gæti það fyllt eyðu á sviði menntavísinda þar sem fyrri rannsóknir á sviðinu eru af skornum skammti. Þá er það styrkur að útbúa kennsluefni sem byggist á rannsóknarniðurstöðunum.
Brittany Marie hlýtur styrk fyrir verkefni sitt „The impact of food skills and nutrition education on household food security, health and food resource management among vulnerable adults in Iceland“. Að mati dómnefndar er um óplægðan rannsóknarvettvang að ræða á Íslandi og telur nefndin það afar mikilvægt að skoða viðkvæma hópa í þessu samhengi. Rannsóknin er því mikilvægt innlegg í að varpa ljósi á félagslegt réttlæti og ætti að opna augu stefnumótandi aðila og stuðla þannig að breyttum áherslum og samfélagslegri ábyrgð.
Ingileif hlýtur styrk fyrir verkefni sitt „Áhrif leiðtoganáms Menntafléttu á kennsluhætti og stöðu skóla sem faglegs námssamfélags“. Að mati dómnefndar er rannsóknarverkefnið afar mikilvægt framlag til skólaþróunar á Íslandi og ætti að styrkja fagmennsku og valdefla ólíkar fagstéttir innan skóla og frístundastarfs. Að sama skapi telur dómnefnd að með rannsókninni gæti skapast ný þekking og skilningur á því hvernig skipulögð starfsþróun kennara geti leitt til umbóta í skólastarfi.
Stjórn Menntavísindasviðs fer með stjórn Styrktar- og rannsóknarsjóðs Þuríðar J. Kristjánsdóttur og skipaði forseti Menntavísindasviðs dómnefnd sem lagði mat á umsóknir og gerði tillögu að úthlutun. Dómnefnd skipuðu Marta Goðadóttir, samskipta- og markaðsstjóri Menntavísindasviðs, Erlingur Jóhannsson prófessor og Guðrún Ragnarsdóttir dósent, bæði á Menntavísindasviði.
Um sjóðinn
Styrktar- og rannsóknasjóður Þuríðar J. Kristjánsdóttur var stofnaður undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands árið 2019. Stofnframlag sjóðsins er gjöf Þuríðar Jóhönnu Kristjánsdóttur, aðstoðarrektors og fyrrverandi prófessors við Kennaraháskóla Íslands, sem lést árið 2018. Í erfðaskrá sinni arfleiddi hún Háskóla Íslands að húseign sinni og öðrum eigum með það að markmiði að stofna styrktarsjóð.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.