Háskóli Íslands

Styrktar- og rannsóknarsjóður Þuríðar J. Kristjánsdóttur

Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til doktorsnema á Menntavísindasviði, einkum vegna verkefna á sviði kennslumála.
 
Sjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands í október árið 2019. Stofnframlag sjóðsins er gjöf Þuríðar Jóhönnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi prófessors við og aðstoðarrektors Kennaraháskóla Íslands, sem lést árið 2018. Í erfðaskrá sinni arfleiddi hún Háskóla Íslands að húseign sinni og öðrum peningalegum eigum með það að markmiði að stofna þennan sjóð.
 
Þuríður Jóhanna Kristjánsdóttir fæddist á Steinum í Stafholtstungum í Borgarfirði 28. apríl 1927. Hún lauk kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands árið 1948 og var síðar við nám í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn og Cambridge-háskóla í Englandi. Hún lauk BS-prófi frá Illinois-háskóla í Urbana árið 1968, meistaraprófi 1969 og doktorsprófi í menntasálarfræði frá sama skóla árið 1971. Hún hóf störf við Kennaraháskóla Íslands árið 1971 og varð fyrsti prófessor við skólann 1973. Þá gegndi hún starfi aðstoðarrektors Kennaraháskólans á árunum 1983-1987. Þuríður lét af störfum við skólann árið 1989.
 
Stjórn Menntavísindasviðs (MVS) Háskóla Íslands fer með stjórn sjóðsins. Í henni sitja sex stjórnarmenn, þ.e. sviðsforseti MVS sem er jafnframt formaður stjórnar og deildarforsetar þeirra fjögurra deilda sem heyra undir sviðið, ásamt fulltrúa nemenda.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is