Háskóli Íslands

Nýr sjóður styður doktorsnema við Háskóla Íslands

Doktorssjóður Styrktarsjóða Háskóla Íslands hefur verið settur á laggirnar og grundvallast á sameiningu sjóða sem ekki hafa verið virkir um árabil, tengjast ekki ákveðnum fræðasviðum og/eða deildum í Háskóla Íslands og heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. 
 
Í anda stefnu Háskóla Íslands, HÍ21, er tilgangur sjóðsins að styðja við og efla doktorsnám við háskólann. Styrkirnir verða veittir í fyrsta skipti árið 2019. Stúdentar sem skráðir eru til doktorsnáms við Háskóla Íslands og hafa framfærslustyrk úr doktorssjóðum háskólans, þ.e. Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, fá allt að 300.000 kr. ráðstöfunarfé sem hægt er að nota við rekstur doktorsverkefnisins. Áður hafði ferðastyrkjum doktorsnema verið fjölgað töluvert til að auðvelda þeim að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.
 
Stjórn sjóðsins skipa þau Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og er hún jafnframt formaður stjórnar, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, og Guðlaug Þóra Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri Miðstöðvar framhaldsnáms.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is