Háskóli Íslands

Rannsóknastyrkir tengdir mjaðmarliðaskiptum og slitgigt

Tveir styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði bæklunarlækninga með áherslu á stoðkerfissjúkdóma úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands. Styrkhafar eru Kristín Briem, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun, og Halldór Jónsson jr., prófessor og sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum.
 
Rannsókn Halldórs Jónssonar jr. prófessors felst í að koma á fót klínísku matskerfi fyrir sjúklinga sem eru búnir að gangast undir heildarmjaðmarliðaskipti. Í dag standa heilbrigðisstarfsmenn frammi fyrir því að fáar og óáreiðanlegar verklagsreglur eru til við mat á besta kosti við val á gervilið í mjöðm, með beinsteypu eða án beinsteypu. Einnig er lítil þekking á hreyfingu liða í ganglimum þeirra sem þurfa í slíkri aðgerð að halda. Markmið rannsóknarinnar er að  þróa skilmerkilegar klínískar verklagsreglur til að styðja betur við ákvarðanatöku á réttri tegund gerviliðar í mjöðm og bæta þannig heilbrigðisþjónustuna. Í rannsókninni er gerð sneiðmyndarannsókn af mjaðmarliðunum fyrir og eftir aðgerð og aftur eftir eitt ár. Einnig er gerð göngugreining og rafvirknimæling á vöðvum sem liggja í kringum mjaðmarliðinn. Í þriðja lagi er unnið með sértækar spurningar til þátttakenda í rannsókninni um líðan og færni sem tengjast mjaðmavandamálum. Rannsóknarniðurstöður eru settar í gagnagrunn sem ætlunin er að svari síðari spurningunni um rétt val á gervilið fyrir hvern og einn. 
 
Að rannsókninni standa Halldór Jónsson jr., yfirlæknir á bæklunarskurðdeild Landspítala og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, Gígja Magnúsdóttir, sjúkraþjálfari á Grensásdeild Landspítala, og Paolo Gargiulo, doktor í heilbrigðisverkfræði og forseti heilbrigðisverkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Tækniháskólann í Vín í Austurríki (Technical University of Wienna) og Háskólann í Napóli á Ítalíu (Federico II University of Naples).
 
Rannsókn Kristínar Briem prófessors er framhald á stærri rannsókn þar sem metin er útbreiðsla og orsakir ákveðinna alvarlegra hnémeiðsla og skurðaðgerðir þeim tengdar. Markmiðið er að meta áhrif þessara meiðsla á þróun slitgigtar í burðarliðum (hnjám og mjöðmum). Kallað verður eftir þátttöku 300 einstaklinga sem hafa sögu um slit á fremra krossbandi í hné á skilgreindu árabili. Myndgreining verður notuð til þess að meta magn slitbreytinga og líkamsbyggingu en spurningalistar til að meta einkenni og athafnagetu þátttakenda. Áhrif annarra áverka við upphafleg meiðsli (t.d. liðþófa- og brjóskáverka) verða metin ásamt áhrifum læknismeðferðar (skurðaðgerð eða ekki) og líkamsbyggingar. Niðurstöðurnar munu auka skilning á því hvaða áhrifaþættir skipta mestu um þróun slitgigtar í burðarliðum. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Arnþór Guðjónsson og Einfríði Árnadóttur, sérfræðinga í myndgreiningu, og Micah Nicholls, doktorsnema við Læknadeild Háskóla Íslands.
 
Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918) árið 2005 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. Frekari upplýsingar er að finna á sjóðavef HÍ.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is