Háskóli Íslands

Styrkir til doktorsnema á Hugvísindasviði

Þrír styrkir hafa verið veittir til doktorsnema úr nýstofnuðum Menntasjóði Hugvísindasviðs. Styrkhafar eru Carmen Quintana Cocolina, doktorsnemi í spænsku við Mála- og menningardeild, Joe Wallace Walser III, doktorsnemi í fornleifafræði við Sagnfræði- og heimspekideild, og Katelin M. Parsons, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild. Hvert þeirra hlaut styrk að upphæð 700.000 krónur til að leggja lokahönd á doktorsverkefni sitt.
 
Þetta er í fyrsta skipti sem veittur er styrkur úr Menntasjóði Hugvísindasviðs en markmið hans er að styrkja doktorsnema við deildir Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, einkum þá sem eru á lokastigum náms.
 
Doktorsverkefni Carmenar Quintana Cocolina „The art of communication: a discourse analysis of three novels by author Carmen Martín Gaite“, byggist á þverfaglegri nálgun sem nýtir í senn bókmenntakenningar og boðskipta- og samskiptakenningar til að rýna í verk spænska rithöfundarins Carmen Martín Gaite (1925-2000). Meginmarkmið rannsóknarinnar er að skoða samband og tengsl höfundar (mælanda/sögumanns) og lesenda (viðtakenda). Sjónum er beint að þremur skáldsögum höfundar með það fyrir augum að varpa ljósi á ákveðna þætti sem einkenna gagnvirk samskipti höfundar og lesenda (þ.e. hvaða skilaboð felast í boðum höfundar og hvernig túlka lesendur þau) og þá spennu sem sprettur af merkingu samtala í textanum. Við orðræðugreiningu er stuðst við ólíkar aðferðir, kenningar og hugmyndir innan bókmenntafræði og samskipta- og boðskiptafræði. 
 
Carmen Quintana Cocolina er með BA-gráðu í blaðamennsku frá Complutense-háskólanum í Madríd og meistaragráðu í fjölmiðlafræði og hnattrænum fræðum (Global Studies) frá Háskólanum í Árósum og Háskólanum í Amsterdam. Hún hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands og gefið út eina skáldsögu.
 
Rannsóknarverkefni Joes Walser nefnist „Hidden dangers: volcanism, climate change and health in historical Iceland“. Í því rannsakar hann áhrif umhverfisbreytinga, eins og kólnandi veðurfars á tímum svokallaðrar litlu ísaldar, og náttúruhamfara, t.d. eldgosa, á heilsufar fólks með mannabeinafræðilegum aðferðum. Stuðst er við hefðbundnar greiningar á mannabeinunum sjálfum en samhliða er lögð áhersla á að greina breytingar í þeim sem rekja má til umhverfislegra þátta sem kunna að hafa haft áhrif á heilsufar fólks. Efnafræðilegar greiningar auk greininga á ísótópum eru jafnframt notaðar til þess að varpa ljósi á efnaskiptasjúkdóma og eiturefni í beinunum, eins og til dæmis flúor. Þá eru, auk flúorsins, önnur eiturefni, s.s. kvikasilfur, arsenik, blý og kadmíum greind í sýnum úr beinum einstaklinga sem bjuggu nærri virkum gosstöðvum í því skyni að meta áhrif mengunar af völdum eldgosa á þá, bæði til skemmri og lengri tíma. Markmið rannsóknarinnar er að nota aðferðir fornleifafræðinnar til að kanna mikilvægi umhverfis fyrir heilsufar og má gera ráð fyrir að hún auki til mikilla muna þekkingu okkar á áhrifum umhverfis og eldgosa á heilsu fólks.
 
Joe Wallace Walser III lauk BA-prófi í mannfræði frá Temple-háskólanum í Bandaríkjunum og MS-prófi í fornmeinafræði frá háskólanum í Durham á Bretlandi. Hann starfar sem sérfræðingur á Þjóðminjasafni Íslands. 
 
Í doktorsritgerð Katelin M. Parsons „Songs for the End of the World. The Poetry of Guðmundur Erlendsson of Fell in Sléttuhlíð“ rannsakar hún hvernig ljóð og önnur skrif Guðmundar Erlendssonar (um 1595-1670) tengjast félagslífi fjölskyldu hans, samfélagi þeirra og þeim skáldum sem hann var í samskiptum við. Guðmundur notaði ljóð til að dreifa upplýsingum um erlenda samtímaatburði og bregðast við persónulegum áföllum. Í ljóðunum fjallaði hann um allt frá sóttum, náttúruhamförum og stríði til eigin útlegðar í Grímsey í kjölfar illdeilna við annað skáld. Guðmundur Erlendsson leit á bókmenntir sem uppsprettu huggunar, vonar og endurlausnar. Seinni hluti ritgerðarinnar er handritafræðileg rannsókn á helstu handritum með ljóðum Guðmundar Erlendssonar og umfjöllun um tengsl þeirra við læsi íslenskra kvenna á árnýöld.
 
Katelin M. Parsons er með BA-próf í íslensku fyrir erlenda stúdenta og MA-próf í þýðingafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur unnið við rannsóknir hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
 
Um sjóðinn
 
Menntasjóður Hugvísindasviðs Háskóla Íslands var stofnaður árið 2018 og byggist á safni sjóða sem tengjast fræðigreinum innan sviðsins. Markmið sjóðsins að styðja við doktorsnám á sviðinu og þá einkum þá sem eru á lokastigum náms. Sjóðirnir sem mynda Menntasjóðinn eru: Det Danske Selskabs Studenterlegat (1943), Forlagsboghandler, Dr. Phil. h.c. Ejnar Munkgaards Stiftelse til Fordel for Det filosofiske Fakultet ved Islands Universitet i Reykjavik (1938), Minningarsjóður dr. Rögnvalds Péturssonar (1960), Minningarsjóður norskra stúdenta (1948), Norðmannsgjöf (1961) og Sögusjóður stúdenta (1930). 
 
Samkvæmt stofnskrá sjóðsins er stjórn hans skipuð forsetum deilda Hugvísindasviðs (Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, Íslensku- og menningardeildar, Mála- og menningardeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar), en sviðsforseti er formaður stjórnar. 
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is