Háskóli Íslands

Styrkir til doktorsnema á Hugvísindasviði

Þrír styrkir hafa verið veittir til doktorsnema úr Menntasjóði Hugvísindasviðs. Styrkhafar eru Atli Antonsson, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild, Lísabet Guðmundsdóttir, doktorsnemi í fornleifafræði við  Sagnfræði- og heimspekideild, og Romina Werth, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild.
 
Hvert þeirra hlaut styrk að upphæð 700.000 krónur til að leggja lokahönd á doktorsverkefni sitt.
 
Þetta er í þriðja sinn sem veittur er styrkur úr Menntasjóði Hugvísindasviðs en markmið hans er að styrkja doktorsnema við deildir Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, einkum þá sem eru á lokastigum náms.
 
Doktorsverkefni Atla Antonssonar, „Menningarsaga íslenskra eldgosa“ tekur til greiningar ýmiss konar frásagnir af eldgosum. Allar götur síðan goðar á Alþingi árið 1000 vísuðu til hraunrennslis á Hellisheiði því til stuðnings að goðin reiddust vegna kristnitökunnar hafa Íslendingar túlkað eldgos ekki einungis sem inngrip æðri máttar í samfélagið heldur einnig sem tákn fyrir örlagaatburði í sögu þjóðarinnar og prófstein á siðferðisþrek hennar og dugnað. Í íslenskum bókmenntum hafa eldgos jafnvel verið túlkuð sem goðsögulegur orsakavaldur mikilsverðra þáttaskila. Reynt verður að svara því hvernig nábýli Íslendinga við eldfjöll hefur mótað þjóðernisvitund þeirra, hvers konar goðsagnir Íslendingar hafi skapað um sjálfa sig, þjóðerni sitt og sögu sína við aldalanga búsetu á eldfjallaeyjunni. 
 
Atli Antonsson er með BA-próf í almennri bókmenntafræði, með heimspeki sem aukagrein, frá Háskóla Íslands og MA-próf í evrópskum bókmenntum frá Humboldt-háskóla í Berlín. Hann leggur nú lokahönd á doktorsritgerð í almennri bókmenntafræði.
 
Doktorsverkefni Lísabetar Guðmundsdóttur nefnist „The Utilisation of Wood in Norse Greenland“. Norrænir menn á Grænlandi voru háðir viði til að búa til hús, báta, áhöld og verkfæri og sem eldsneyti. Vegna norðlægrar legu Grænlands og stuttra, svalra sumra eru staðbundnar trjátegundir flestar lágvaxnir runnar. Því hefur verið haldið fram að innflutningur á timbri hafi verið nauðsynlegur til að uppfylla viðarþörf norrænna manna á Grænlandi. Viðarsýni úr uppgreftri í fimm norrænum byggðum á Grænlandi, biskupssetrinu Görðum/Igaliku, Tatsip Ataa Killeq, Tasilikulooq, Narsaq og Gården under Sandet (GUS), voru greind til að kanna hvort viðurinn væri innlendur, innfluttur eða rekaviður. Rannsóknin sýnir að bændur á Grænlandi notuðu aðallega rekavið og innlendan við en höfuðból líkt og Igaliku höfðu aðgang að óreglulegum timburinnflutningi frá meginlandi Evrópu og Norður-Ameríku. Þessar niðurstöður benda til þess að norrrænir menn á Grænlandi hafi ekki verið háðir innfluttum viði heldur hafi þeir í raun verið sjálfum sér nógir um timburauðlindir.
 
Lísabet Guðmundsdóttir er með BA- og MA-gráðu frá Háskóla Íslands. Hún hefur unnið sem stundakennari við Háskóla Íslands og sem fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands. 
 
Markmið doktorsverkefnis Rominu Werth, „The Fairy Tale in Old Norse Literature“, er að kanna tilvist ævintýraefnis í fornnorrænum bókmenntum. Rannsókn á einstökum textum og þáttum sýnir fram að þeir eru að hluta byggðir á þjóðsagnaefni og að ákveðnar þjóðsögur og ævintýri, eins og þau eru skráð í nútímanum, hafi verið þekkt á Íslandi á miðöldum (há- og síðmiðöldum). Með rannsókninni eykst þekking á menningu miðalda, íslenskum fornbókmenntum og varðveislu sagnaefnis í munnlegri geymd.
 
Romina Werth er með BA-gráðu í íslensku sem öðru máli og MA-gráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur verið stundakennari við Íslensku- og menningardeild og gefið út kennslubókina „Andlit á glugga“ ásamt Jóni Karli Helgasyni prófessor. Romina starfar sem verkefnisstjóri á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.
 
Um sjóðinn
Menntasjóður Hugvísindasviðs Háskóla Íslands var stofnaður árið 2018 og byggist á safni sjóða sem tengjast fræðigreinum innan sviðsins. Markmið sjóðsins að styðja við doktorsnám á sviðinu og þá einkum doktorsnema sem eru á lokastigum náms. Sjóðirnir sem mynda Menntasjóðinn eru Det Danske Selskabs Studenterlegat (1943), Forlagsboghandler, Dr. Phil. h.c. Ejnar Munkgaards Stiftelse til Fordel for Det filosofiske Fakultet ved Islands Universitet i Reykjavik (1938), Minningarsjóður dr. Rögnvalds Péturssonar (1960), Minningarsjóður norskra stúdenta (1948), Norðmannsgjöf (1961) og Sögusjóður stúdenta (1930). 
 
Samkvæmt stofnskrá sjóðsins er stjórn hans skipuð forsetum deilda Hugvísindasviðs (Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, Íslensku- og menningardeildar, Mála- og menningardeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar), en sviðsforseti er formaður stjórnar. 
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is