Háskóli Íslands

Styrkir til doktorsnema í hjúkrunarfræði

Tveir styrkir voru veittir úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur 6. október sl. til doktorsrannsókna á meðferðarsamræðum tengdum krabbameini og kynlífi annars vegar og við foreldra unglinga með ADHD hins vegar. Styrkhafar eru hjúkrunarfræðingarnir Jóna Ingibjörg Jónsdóttir og Margrét Gísladóttir. Heildarupphæð styrkjanna nemur 700.000 krónum. Þetta í áttunda sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en hann var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2007.

Doktorsrannsókna Jónu Ingibjargar Jónsdóttur hefur það markmið að þróa meðferðarsamræður við konur með krabbamein og maka þeirra og skoða áhrif samræðna á aðlögun tengda kynlífi og nánd. Greining og meðferð krabbameins er fyrirséður álagsvaldur í sambandi við kynlíf og nánd. Skortur er á meðferðarrannsóknum um þetta efni meðal kvenna með krabbamein og maka þeirra. Tilgangur doktorsverkefnisins er að þróa og meta árangur meðferðar fyrir íslensk pör þar sem konan hefur greinst með krabbamein í því skyni að efla aðlögun tengda kynlífi og nánd. Þróuð verður ný meðferð fyrir pör og varpað ljósi á áhrif og/eða gagnsemi hennar. Í heild munu niðurstöður rannsóknarinnar bæta þekkingu innan hjúkrunar á endurhæfingu og bata varðandi kynlíf hjá konum með krabbamein og mökum þeirra.

Í doktorsrannsókn Margrétar Gísladóttur er skoðaður árangur meðferðarsamræðna við foreldra unglinga með athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) í fræðslu- og stuðningshópum og foreldraviðtölum. Foreldrar unglinga með ADHD eru undir miklu álagi og þjást af streitu og vanlíðan en færniþjálfun getur eflt stuðningshlutverkið. Megintilgangur rannsóknarinnar er að meta hvernig hægt er að styrkja foreldra í þessu hlutverki og að bera saman meðferðarsamræður við hefðbundna meðferð. Þátttakendur eru foreldrar 13-17 ára unglinga með ADHD. Handahófstilraunasnið með sex spurningalistum var notað við rannsóknina og  meðferðarsamræður samanstóðu af hóptímum og foreldraviðtölum. Fyrstu niðurstöðu gefa vísbendingar um að foreldrar unglinga með ADHD upplifi meiri stuðning og viðhorfsbreytingu með meðferðarsamræðunum og gefa jafnframt til kynna hvernig fagfólk getur aðstoðað foreldrana.                                                      

Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur vinnur að því að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir sjóðurinn styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum hans. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.

Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóðanna HÍ er 571292-3199.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is