Háskóli Íslands

Styrkir til náms og rannsókna í Japan og á Íslandi á næsta skólaári

Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands.
 
Umsóknarfrestur er til 15. janúar 2021. 
 
Tilgangur Watanabe-sjóðsins er að styrkja fræðileg tengsl Íslands og Japans. Sjóðurinn styrkir stúdenta og starfsmenn Háskóla Íslands til náms og starfa í Japan og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að fá styrk til dvalar við Háskóla Íslands. 
 
Annars vegar er um að ræða styrki til námsdvalar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsstigi við Háskóla Íslands eða japanska háskóla og hins vegar ferða- og dvalarstyrki til nýdoktora, kennara og fræðimanna milli háskóla í Japan og Háskóla Íslands. Nemendur og akademískir starfsmenn af öllum fræðasviðum geta sótt um styrkina.  
 
Veittir eru ferða- og dvalarstyrkir til allt að níu mánaða námsdvalar. Dvalarstyrkur nemur allt að 200.000 kr. á mánuði vegna dvalar á Íslandi og allt að 150.000 JPY á mánuði vegna dvalar í Japan. Styrkþegar sem dvelja lengur en einn mánuð geta einnig sótt um allt að 200.000 kr. í ferðastyrk. Sjóðurinn veitir ekki styrk fyrir skólagjöldum eða öðrum kostnaði. Nýdoktorar, kennarar og fræðimenn geta einnig sótt um allt að 500.000 kr. styrk til styttri dvalar, allt að einum mánuði, sem tengist fræðistörfum eða rannsóknasamstarfi milli Háskóla Íslands og mennta- eða fræðastofnana í Japan. 
 
Stjórn Watanabe sjóðsins metur umsóknir og velur styrkhafa. Stjórnin áskilur sér rétt að hafna styrkumsóknum. 
 
Lokaskýrslur og frásagnir fyrrverandi styrkhafa er að finna á vefsíðu sjóðsins 
 
Umsóknareyðublöð er að finna á vefsíðu sjóðsins. Útfyllt umsóknaeyðublað ásamt fylgiskjölum skal sent á netfangið watanabe@hi.is fyrir miðnætti að kvöldi 15. janúar 2021. 
 
Fyrirspurnum um Watanabe-styrktarsjóðinn og umsóknarferli skal beint á netfangið watanabe@hi.is, eða til Hafliða Sævarssonar, verkefnisstjóra í síma 525-4311.
 
Sá fyrirvari er gerður varðandi veitingu styrkja úr sjóðnum á næsta námsári að styrkhafar geti ferðast milli Japans og Íslands m.t.t. COVID-19-reglna stjórnvalda í löndunum tveimur.
 
Þetta verður í ellefta skipti sem styrkir verða veittir úr sjóðnum. Við síðustu úthlutun hlutu alls 28 nemendur og fræðimenn styrk úr sjóðnum, og var metfjöldi umsókna og styrkja.
 
Um Watanabe-styrktarsjóðinn 
Watanabe-styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 með rausnarlegri gjöf Hr. Toshizo (Tom) Watanabe með það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Hann er formaður Toshizo Watanabe Foundation og stofnandi og fyrrverandi framkvæmdastjóri Nikkel Global fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum.
 
Hr. Watanabe hlaut styrk frá Wien International Scholarship Program (WISP) til náms við Brandeis-háskólann í Massachusetts í Bandaríkjunum. Í Brandeis kynntist hann Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og tókst með þeim góð vinátta. Hr. Watanabe er ævinlega þakklátur fyrir námsstyrkinn og þau tækifæri sem menntun hans í Bandaríkjunum veitti honum. Hann vildi því koma á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Watanabe hafði samband við Geir H. Haarde, sinn gamla skólabróður, með það í huga að stofna styrktarsjóð við íslenskan háskóla og efla tengsl Íslands og Japan. Í kjölfarið var Watanabe-styrktarsjóðurinn við Háskóla Íslands stofnaður árið 2008. Stofnféð var 3 milljónir bandaríkjadala og árið 2018 bætti Hr. Watanabe veglegri peningagjöf við sjóðinn að upphæð tveimur milljónum bandaríkjadala.
 
Stjórn sjóðsins skipa dr. Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta Háskóla Íslands, formaður, Toshizo Watanabe, stofnandi sjóðsins, og dr. Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum við Háskóla Íslands.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is