Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna á alþýðumenningu í Þingeyjarsýslu

Tvö verkefni hafa hlotið styrk úr Sagnfræðisjóði Aðalgeirs Kristjánssonar og er þetta í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Styrkhafar eru Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor emeritus, Trausti Dagsson, verkefnastjóri og forritari, og Rósa Þorsteinsdóttir rannsóknardósent, öll hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Heildarupphæð styrkja nemur tveimur milljónum króna.

Markmið sjóðsins er að rannsaka hina sérstöku alþýðumenningu í Þingeyjarsýslu sem þar varð til á síðari hluta 19. aldar og upphafi þeirrar tuttugustu, rætur hennar, einkenni, vöxt hennar og viðgang.

Úlfar Bragason hlýtur styrk til útgáfu bókarinnar „Ingunn Sigurjónsdóttir: Ykkar einlæg. Bréf frá berklahælum“. Úlfar hefur safnað saman bréfum Ingunnar Sigurjónsdóttur, sem hún skrifaði á berklahælum, skýrt þau, ritað inngang að þeim og búið til prentunar. Bókin kemur út hjá Háskólaútgáfunni. Fyrirhugaður útgáfudagur er 24. nóvember nk. þegar 118 ár verða liðin frá fæðingu Ingunnar.

Ingunn Sigurjónsdóttir var fædd 1906 á Einarsstöðum í Reykjadal en ólst upp frá 1913 á Litlulaugum í sömu sveit. Líklega smitaðist hún af berklum sem barn. Hún var fyrst send á Sjúkrahúsið á Akureyri í vetrarbyrjun 1924, var þá greind með berkla og hafin meðferð á sjúkdómi hennar. Hún fór suður á Vífilsstaðahæli vorið 1926 og flutti svo inn á Kristneshæli í nóvember 1927 þegar hælið hafði verið tekið í notkun. Ingunn lést þar 20. maí 1931. Á meðan á dvöl Ingunnar stóð á sjúkrahúsinu og hælum skrifaðist hún á við foreldra og systkini. Bréfin lýsa lífinu á sjúkrastofnunum, lækingaaðferðum, andlegu ástandi berklasjúklings, löngunum og þrám, en einnig þroskakostum ungrar konu sem bundin er á heilsuhælum. 

Trausti Dagsson og Rósa Þorsteinsdóttir hljóta styrk til undirbúnings og útgáfu bókarinnar „Þjóðsögur Baldvins Jónatanssonar“. 

Baldvin Jónatansson (1860–1944) var fæddur á Bergstöðum í Aðaldal og bjó á ýmsum stöðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var þekktur fyrir hagmælsku sína og vísur en einnig fyrir að safna þjóðsögum. Handrit hans er varðveitt á Héraðsskjalasafni Þingeyinga á Húsavík og inniheldur 13 hefti með þjóðsögum, ævintýrum og þjóðlegum fróðleik frá árunum 1906–10 og vetrinum 1932–33. Sumar sögurnar er að finna í útgefnum þjóðsagnasöfnum eins og Grímu og Sagnablöðum Arnars á Steðja en í handritunum leynist enn margt sem aldrei hefur verið gefið út. Verkefnið miðar að því að gefa út þjóðsagnasafn hans í heild sinni, skrá sögurnar í Sagnagrunn og rannsaka ævi Baldvins og sagnamenningu Suður-Þingeyinga.

Um sjóðinn
Sjóðurinn er stofnaður árið 2023 til minningar um Aðalgeir Kristjánsson (f. 30. maí 1924, d. 18. júlí 2021).

Aðalgeir lauk kandídatsprófi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands árið 1953, stundaði framhaldsnám við Óslóarháskóla 1954–55 og vann við rannsóknir og útgáfustörf í Kaupmannahöfn veturna 1955–58. Árið 1974 varði hann við Háskóla Íslands doktorsritgerð sína „Brynjólfur Pétursson, ævi og störf“. Hann var settur bókavörður við Landsbókasafn Íslands 1959–1961 en starfaði sem skjalavörður við Þjóðskjalasafn Íslands frá árinu 1961 til starfsloka og sem fyrsti skjalavörður frá 1970. Aðalgeir stundaði ritstörf og rannsóknir meðfram störfum á Þjóðskjalasafninu og að loknum embættisskyldum einbeitti hann sér að sagnfræðirannsóknum. Aðalgeir telst meðal virtustu og afkastamestu sagnfræðinga seinni tíma en sérsvið hans var 19. öldin og ekki síst stjórnmálasaga, menningarsaga og samskipti Dana og Íslendinga.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstæða stjórn.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is