Tveir styrkir hafa verið veittir úr Minningarsjóði Aðalsteins Kristjánssonar til rannsókna í raunvísindum. Styrkhafar eru Kristbjörg Anna Þórarinsdóttir, doktorsnemi í eðlisfræði við Raunvísindadeild, og Susanne Claudia Möckel, doktorsnemi í landfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild. Heildarupphæð styrkja nemur 2 milljónum króna.
Tilgangur Minningarsjóðs Aðalsteins Kristjánssonar er að veita nemendum og/eða fræðimönnum við Háskóla Íslands styrki til rannsókna í raunvísindum.
Doktorsrannsókn Kristbjargar Önnu Þórarinsdóttur fjallar um þróun nýrra segulefna fyrir spuna-rafeindatækni (spintronics). Umfang tölva (rúmtak) hefur minnkað verulega á síðustu árum samhliða því sem reikni- og geymslugeta þeirra hefur stóraukist. Þetta er vegna hraðrar þróunar á sviði örtækni (nanotechnology). Harðir diskar geyma upplýsingar í bitum þar sem hver biti er skrifaður í járnseglandi efni og hefur ákveðna segulstefnu. Í áframhaldandi leit að öflugri tölvum er mikilvægt að finna efni sem hægt er að nota í smærri íhluti en á sama tíma er þrýstingur á að lækka framleiðslukostnað. Rannsóknir benda til þess að myndlaus efni séu líkleg til þess að verða næsta kynslóð efna sem notuð verða í örtækni. Í myndlausum efnum eru atómin ekki með reglulega uppröðun, líkt og í kristöllum. Seguleiginleikar þessara efna eru á margan hátt afar frábrugðnir seguleiginleikum kristalla og margt enn óþekkt. Í myndlausum efnum spanast upp áður óþekktir seguleiginleikar sem geta skipt sköpum í til dæmis segulminnum og öðrum segulrafrásum. Leiðbeinandi Kristbjargar Önnu er Friðrik Magnus, vísindamaður á Raunvísindastofnun Háskólans.
Doktorsrannsókn Susanne Claudia Möckel ber heitið Lífrænt efni í íslenskum mýrum og uppruni kolefnis í jarðvegi. Myndunarskilyrði, stöðugleiki og niðurbrot. Íslenskar mómýrar verða fyrir óvenjumiklu áfoki steinefna í formi gjósku og rofefnis frá rofsvæðum landins. Mójörð (jarðvegur mómýra) er því sérstök á Íslandi en hún hefur bæði einkenni mójarðar og eldfjallajarðar. Þó að mójörð bindi mest kolefni allra jarðvegsgerða skortir rannsóknir á áhrifum áfoksefna og eldfjallaeinkenna á kolefnisbúskap hennar. Markmið þessa doktorsverkefnisins er því að rannsaka stöðugleika kolefnis í íslenskri mójörð og þar með auka þekkingu á ferlum, myndunarskilyrðum og bindingu kolefnis í óframræstum mómýrum nálægt og fjarri virkum eldfjalla- og rofsvæðum. Unnið er með jarðveg úr þremur óröskuðum mómýrum úr Austur Húnavatnssýslu, í mismunandi fjarlægð frá rofsvæðum og eldvirku svæðum landsins. Leiðbeinendur Susanne eru Guðrún Gísladóttir og Egill Erlendsson, prófessorar í landfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Um sjóðinn
Minningasjóður Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1978 með dánargjöf Aðalsteins Kristjánssonar. Hann bjó lengstum í Winnipeg í Kanada og síðast í Puente í Los Angeles í Kaliforníu. Aðalsteinn lést hinn 14. júlí 1949.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Sigurður S. Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, sem jafnframt er formaður stjórnar, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Jarðvísindastofnun, og Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor við Raunvísindadeild.
Minningasjóður Aðalsteins Kristjánssonar er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans.