Háskóli Íslands

Styrkir til útgáfu fræðarita Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

Veittir hafa verið styrkir að upphæð samtals tæpum tveimur milljónum króna úr Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur til að standa straum af útgáfu fræðirita á vegum stofnunarinnar. Þetta ákvað stjórn styrktarsjóðsins á fundi sínum þann 15. september sl. Stjórnin samþykkti einróma að styrkja útgáfu á vegum stofnunarinnar sem hér segir:
Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu 2014 og 2015 – 800.000 kr.
Heimar mætast. Smásögur frá Mexíkó – 550.000 kr.
Frá Púshkín til Pasternaks – kennslubók í rússneskum bókmenntum fyrir nemendur í rússnesku – 190.000 kr.
Hafið starfar í þögn minni. Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda – 450.000 kr.
 
Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu 2014 og 2015
Milli mála kom út í fyrsta sinn árið 2009. Markmið með útgáfu ritsins er að vera vettvangur fyrir akademíska starfsmenn stofnunarinnar og fræðimenn utan hennar til birtingar á greinum og öðru efni sem tengist fræðasviðum stofnunarinnar og þeim rannsóknum sem fram fara innan hennar. Árið 2012 var Milli mála breytt úr ársriti í tímarit um erlend tungumál og menningu til þess að gera það sýnilegra sem vettvang á fræðasviðinu og opna það enn frekar fyrir utanaðkomandi greinum. Árið 2014 var tímaritinu breytt í vetímarit og eru nú öll útgefin hefti tímaritsins þar aðgengileg: http://millimala.hi.is/is/forsida/
Ritstjórar Milli mála 2015 voru Ásdís R. Magnúsdóttir og Þórhallur Eyþórsson.
 
Heimar mætast. Smásögur frá Mexíkó
Kristín Guðrún Jónsdóttir þýðir þrettán smásögur frá 20. og 21. öld og skrifar fræðilegan inngang að þýðingunni. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í allri Rómönsku Ameríku alla 20. öld, ekki síst í Mexíkó, en þaðan koma margir af helstu rithöfundum álfunnar. Margir þeirra eru heimsþekktir. Bókin er hugsuð sem kynning á smásögum frá Mexíkó fyrir íslenska lesendur. Nöfn sumra höfundanna hafa sjaldan eða aldrei heyrst hér á landi. Ritstjóri er Erla Erlendsdóttir.
 
Frá Púshkín til Pasternaks – kennslubók í rússneskum bókmenntum fyrir nemendur í rússnesku
Í bókinni er fjallað (á íslensku) um helstu höfunda Rússlands og Sovétríkjanna á 19. og 20. öld, æviferil þeirra og verk. Hverri umfjöllun fylgja textar á rússnesku eftir viðkomandi höfund með orðabók (rússnesk-íslensk), orðskýringum (á rússnesku) og menningarfræðilegum skýringum (á rússnesku). Ritstjórar eru Rebekka Þráinsdóttir og Olga Korotkova.
 
Hafið starfar í þögn minni. Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda
Safn ljóðaþýðinga og frumtexta þeirra eftir sílenska ljóðskáldið Pablo Neruda í ritstjórn Hólmfríðar Garðarsdóttur. Í bókinni verða birtar íslenskar þýðingar á ljóðum skáldsins eftir ýmsa þýðendur, auk fræðilegs inngangs ritstjóra.
 
Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur var stofnaður árið 2003. Hlutverk hans er að renna styrkum stoðum undir starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og stuðla að vexti og viðgangi stofnunarinnar. Þetta er í fjórða sinn sem Styrktarsjóðurinn úthlutar styrki til útgáfu á vegum stofnunarinnar.
 
Stjórnarformaður Styrktarsjóðsins er Frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, en aðrir sem eiga sæti í stjórn hans eru Ragnheiður Jóna Jónsdóttir menntunarfræðingur, Sigríður Th. Erlendsdóttir sagnfræðingur, Steinþór Pálsson bankastjóri og Vésteinn Ólason, prófessor emeritus. Varamenn í stjórn eru Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur og Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri.
 
   
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is