Úthlutað var úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents við hátíðlega athöfn í dag, 21. desember 2012, í Norræna húsinu.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja stúdenta til náms við verkfræðideildir Háskóla Íslands. Reglur sjóðsins kveða á um að sá nemandi sem fengið hefur hæstu meðaleinkunn eftir annað ár í námi við verkfræðideildir skólans hljóti styrkinn það árið. Styrkhafi í ár er Elín Ásta Ólafsdóttir, BS-nemi í umhverfis- og byggingarverkfræði. Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Elín Ásta hlýtur viðurkenningu fyrir afrek sín því þegar hún innritaðist í umhverfis- og byggingarverkfræði haustið 2010 hlaut hún styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands.
Sjóðurinn var stofnaður af foreldrum Þorvalds Finnbogasonar, Sigríði Eiríksdóttur og Finnboga Rúti Þorvaldssyni, fyrrverandi forseta verkfræðideildar Háskóla Íslands, á 21 árs afmæli Þorvalds, sonar þeirra, 21. desember 1952. Frú Vigdís Finnbogadóttir, systir Þorvalds, situr í stjórninni ásamt Hilmari Braga Janussyni, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, og Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands. Árið 1953 var fyrst úthlutað úr sjóðnum. Í ár var í 43. sinn úthlutað til afburðanemanda í verkfræði.
Fyrsti styrkþegi sjóðsins var Björn Kristinsson, sem fór til náms við Tækniháskólann í Karlsruhe í Þýskalandi. Björn er prófessor emeritus við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands en um tíma gegndi hann stöðu forseta verkfræðideildar skólans. Fyrst kvenna til þess að hljóta styrk úr sjóðnum var Anna Soffía Hauksdóttir árið 1980, en hún er nú prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Fleiri starfsmenn verkfræðideilda skólans hafa einnig hlotið styrk úr sjóðnum, t.d. Ragnar Ólafsson, lektor í Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, árið 2001. Margir úr röðum styrkþeganna hafa farið utan til náms, kennt við verkfræðideildir skólans eða starfa hjá verkfræðistofum og hátæknifyrirtækjum