Veittur hefur verið styrkur úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli til kynningar á bókinni Icelandic Heritage in North America sem kom út á ensku hjá University of Manitoba Press á síðasta ári. Ritstjórar eru Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason, prófessorar emeriti. Höfundar bókarinnar eru átján, bæði íslenskir og erlendir.
Bókin er safn greina sem lýsa niðurstöðum nýlegra íslenskra rannsókna á máli og menningarlegri sjálfsmynd fólks af íslenskum uppruna í Vesturheimi og þróun þeirrar íslensku sem enn er töluð þar vestra. Verkefnið var styrkt af RANNÍS og útgáfan styrkt af Sjóði Páls Guðmundssonar. Styrkurinn í þetta sinn er veittur til að standa straum af kynningu greinasafnsins um íslenska menningararfinn í Vesturheimi hér heima og í Norður-Ameríku. Kynningar hafa þegar farið fram á Akureyri, í Mývatnssveit, Winnipeg og Gimli í Manitoba, Viktoriu í Bresku Kólumbíu í Kanada og í Wisconsin í Bandaríkjunum. Bókinni hefur alls staðar verið vel tekið.
Um sjóðinn
Tilgangur sjóðsins er að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Háskólans í Manitoba í Kanada, m.a. með því að veita stúdentum og fræðimönnum annars skólans styrki til rannsókna eða náms við hinn skólann eða til verkefna sem falla að tilgangi sjóðsins með öðrum hætti.
Sjóðurinn er byggður á gjöf Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli til Háskóla Íslands árið 1971 skv. erfðaskrá hans. Páll var fæddur 26. júní 1887 og var bóndi í Saskatchewan í Kanada. Páll lést 11. maí árið 1966.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.