Háskóli Íslands

Styrkur til verkefna á sviði íslensk-kanadískra bókmennta og íslenskrar bókmennta- og menningarsögu

Þrjú verkefni hafa hlotið styrk úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli við Háskóla Íslands. Styrkhafar eru Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og staðarhaldari á Hrafnseyri. Styrkirnir eru veittir til útgáfu bóka á sviði íslensk-kanadískra bókmennta og íslenskrar bókmennta- og menningarsögu.
 
Að vestan. Íslensk-kanadískar smásögur (2022)
 
Bókin geymir úrval af sögum eftir W. D. Valgardson, David Arnason og Kristjönu Gunnars í þýðingu Guðrúnar Bjarkar Guðsteinsdóttur, prófessors í breskum og norðuramerískum bókmenntum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Guðrún Björk ritaði einnig formála sem rekur stuttlega framsækin smásagnaskrif Vestur-Íslendinga, kynnir smásögur og sagnasveiga í Kanada og framlag þessara þriggja margrómuðu rithöfunda til þróunar þeirra. Í bókinni eru fimmtán smásögur sem ekki hafa birst áður á íslensku. Að efni og stíl eru sögurnar fjölbreyttar og grípandi og sögusviðið er víðfeðmt, spannar allt frá Íslandi og sléttum Norður-Ameríku vestur á Kyrrahafsströnd – allt frá fyrri öldum og fram á okkar daga. 
 
Ritstjóri er Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og útgefandi er Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfan, styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta, Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli við HÍ og Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.
 
Menning við ysta haf. Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda (áætluð útgáfa í september 2023)
 
Þegar spáð er í íslenska bókmennta- og menningarsögu má sjá hvernig mörg merkisverk íslenskra bókmennta eiga rætur sínar að rekja til Vestfjarða og Stranda. Markmiðið með útgáfunni á greinasafninu Menning við ysta haf er að skapa samræðu um þetta efni og kortleggja um leið þó ekki væri nema brot af þeim handritum og bókmenntaverkum sem rísa úr djúpinu frá miðöldum til okkar tíma. Útgáfan er lokahluti verkefnisins Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða (2017–2021) og byggir að hluta á erindum sem flutt voru á Hrafnseyri (sumarið 2017) og tveimur málþingum á Ísafirði (2018 í Edinborgarhúsinu og 2021 í Safnahúsinu). Tilurð verkefnisins hvílir í sumarnámskeiði Íslenskudeildar Manitoba-háskóla á Vestfjörðum (2007-2015) og samstarfi deildarinnar í því efni við Háskólasetur Vestfjarða. Verkefnið hefur notið stuðnings prófessorsembættis Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands sem Guðmundur Hálfdánarson gegnir og hann skrifar formála bókarinnar.
 
Greinarhöfundar eru fræðimenn og rithöfundar frá Íslandi, Kanada og Danmörku, og ritstjórar bókarinnar eru Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og staðarhaldari á Hrafnseyri. Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Bókin er tileinkuð minningu Eiríks Guðmundssonar (1969–2022).
 
Smárit um skáldið Undínu (áætluð útgáfa vor 2024)
 
Hún sem birti ljóðin sín undir skáldanafninu Undína hét Helga Steinvör Baldvinsdóttir (1858‒1941). Hún sigldi frá Akureyri með Drottningunni (S.S. Queen) í ágúst 1873, bjó bæði í Kanada og Bandaríkjunum og varð eitt af helstu skáldum íslenskra vesturfara. Á tímum þjóðflutninganna miklu frá Evrópu til Norður-Ameríku var menntun alla jafna bundin skólagöngunni sem lífið bauð og Helga á það sameiginlegt með öðrum skáldum íslenskra vesturfara að hafa numið land í nútímabókmenntum með óblíðum örlögum, lestri bókmennta og ómældri náttúrugáfu. En ólíkt skáldum og rithöfundum á borð við Stephan G. Stephansson (1853‒1927), Jakobínu Johnson (1883‒1977), Jóhann Magnús Bjarnason (1866‒1945) og Guttorm J. Guttormsson (1878‒1966) naut Helga þess ekki að sjá bók eftir sig á prenti. 
 
Lítið hefur verið skrifað um ljóð skáldsins sem í lok nítjándu aldar var spáð framtíðarsæti í íslenskum bókmenntum. Smáriti Birnu Bjarnadóttur um Undínu er ætlað að vekja athygli á ljóðum hennar sem bera örlagaríkri reynslu ríkulegt vitni og fela jafnframt í sér vísbendingu um þá fagurfræði sem sækir til stefja útlegðar- og ummyndana í heimsbókmenntum. Útgáfan er á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunnar. 
 
Um sjóðinn
Tilgangur sjóðsins er að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Háskólans í Manitoba í Kanada m.a. með því að veita stúdentum og fræðimönnum annars skólans styrki til rannsókna eða náms við hinn skólann eða til verkefna sem falla að tilgangi sjóðsins með öðrum hætti.
Sjóðurinn er byggður á gjöf Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli til Háskóla Íslands árið 1971 skv. erfðaskrá hans. Páll var fæddur 26. júní 1887 og var bóndi í Saskatchewan í Kanada. Páll lést 11. maí árið 1966. 
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is