Háskóli Íslands

Þrettán hljóta styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum

Níu nemendur og fjórir fræðimenn á afar fjölbreyttum fræðasviðum við bæði íslenska og japanska háskóla hljóta styrki að upphæð samtals um ellefu milljónir króna úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands. Styrkirnir voru afhentir við athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands fimmtudaginn 27. apríl. Viðstödd úthlutunina voru Toshizo Watanabe, stofnandi sjóðsins, og eiginkona hans, Hidemi Watanabe. 
 
Toshizo Watanabe stofnaði sjóðinn við Háskóla Íslands árið 2008 með veglegri peningagjöf en sjóðurinn hefur það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Fyrir tilstilli hans gefst íslenskum stúdentum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands. 
 
Þetta var í sjötta sinn sem úthlutað var úr sjóðnum og að þessu sinni hljóta þrettán styrk sem fyrr segir, átta frá Íslandi og fimm frá Japan. Styrkþegarnir eru:
 
Árni Breki Ríkharðsson, BA-nemi í japönsku máli og menningu, sem fær styrk til skiptináms við Nagoya-háskóla.
 
Guðmundur Garðar Árnason, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlýtur styrk til skiptináms við Kyoto Sangyo háskólann.
 
Erika Mita, BA-nemi í menntunarfræðum við International Christian University í Japan, hlýtur styrk til skiptináms við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.  
 
Marta Jónsdóttir, BA-nemi í lögfræði, hlýtur styrk til skiptináms í alþjóðalögfræði við Nagoya-háskóla.
 
Magdalena M. Jóhannesdóttir, MS-nemi í lyfjafræði, hlýtur styrk til þriggja mánaða rannsóknardvalar við Tokyo Institute of Technology. 
 
Azusa Yamada, sem útskrifuð er með BA-gráðu í hnattrænum fræðum frá Doshisha Womens College of
Liberal Arts, hlýtur styrk til að hefja MS-nám í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands með sérstaka áherslu á jarðvarma. 
 
Bryndís Ólafsdóttir, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild,  hlýtur styrk til tveggja mánaða rannsóknardvalar í Japan þar sem hún hyggst vinna í doktorsverkefni sínu sem snýr að alþjóðavæðingu lítilla og meðalstórra íslenskra, danskra og norskra fyrirtækja sem flytja út vörur til Japans og Suður-Kóreu.
 
Jin Jing, doktorsnemi  í alþjóðasamskiptum við Nagoya-háskóla, hlýtur styrk til fimm mánaða rannsóknardvalar á Íslandi þar sem hún hyggst kanna reynslu Kínverja og Japana af því að búa hér á landi.
 
Yuki Minamisawa, doktorsnemi  í norrænum tungumálum og málvísindum við Osaka-háskóla , hlýtur styrk til mánaðar dvalar á Íslandi og rannsókna tengdum doktorsverkefni sínu.
 
Laura Malinauskaite, starfsmaður við Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna við Háskóla Íslands (UNU-GEST), hlýtur styrk til tveggja mánaða dvalar við Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tókýó vegna rannsókna sinna sem snúa að  kynjajafnrétti í jarðvarmageiranum í Japan, Kenía, Eþíópíu, Nýja-Sjálandi og Íslandi. Markmið hennar er einnig að efla tengsl skóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og í Japan.
 
Séverine Biard, nýdoktor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, hlýtur styrk til 10 daga heimsóknar til Japans til að vinna að rannsóknarverkefni í stærðfræði með Masanori Adachi, prófessor við Tokyo University of Science. 
 
Maxwell Christopher Brown, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, hlýtur styrk til tveggja vikna dvalar og rannsóknastarfa tengdum segulsviði jarðar við Kochi University Center for Advanced Core Research. Þar hyggst hann efla frekar samstaf við Yuhji Yamomoto sem kom hingað til lands á síðasta ári fyrir tilstyrk Watanabe-styrktarsjóðsins. 
 
Kazufumi Osako, dósent við Tokyo University of Marine Science and Technology, fær styrk til viku dvalar á Íslandi, til að koma á fót þríhliða samstarfi við bæði Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Matís.
 
Um Watanabe-styrktarsjóðinn við Háskóla Íslands
Watanabe-styrktarsjóðurinn var eins og fyrr segir stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 og hefur það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans.  
 
Toshizo Watanabe, sem lagði fram stofnfé sjóðsins, er frumkvöðull og einn af aðstandendum Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum.  Í skiptinámi sínu við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum  kynntist  hann Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Við undirritun stofnskrár sjóðsins sagðist Watanabe vilja endurgjalda aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, gamla skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
 
Toshizo Watanabe ávarpaði styrkþega og aðra gesti við athöfnina í dag. Hann situr í stjórn styrktarsjóðsins ásamt Má Mássyni, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, og Ingimundi Sigfússyni, cand.jur. og fyrrverandi sendiherra í Japan.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is