Háskóli Íslands

Ingjaldssjóður styrkir viðskiptafræði- og tónlistarnema

Þrír nemendur í framhaldsnámi erlendis hafa fengið styrki úr Ingjaldssjóði við Háskóla Íslands. Styrkjum var úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn í tilefni af 75 ára afmælis Viðskiptafræðideildar föstudaginn 18. nóvember og nemur heildarupphæð styrkja 1,8 milljónum króna.
 
Ingjaldssjóður var stofnaður 17. nóvember 2015 til minningar um Ingjald Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ingjaldur starfaði lengst af við Háskóla Íslands og arfleiddi hann skólann að öllum eigum sínum. Stofnfé sjóðsins nam sjötíu milljónum króna. Samkvæmt fyrirmælum sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds skal sjóðurinn styrkja efnilega íslenska námsmenn við Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun og alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist.
 
Styrkhafar árið 2016 eru:
 
Ingibjörg Friðriksdóttir, söngkona, tónskáld og hljóðlistakona sem er í meistaranámi við Center for Contemporary Music (CCM) í Mills College í San Fransisco í Bandaríkjunum. CCM er leiðandi afl innan elektrónískrar tilraunatónlistar í heiminum en þangað sækja margir listamenn vegna sérstöðu deildarinnar. Elektróníska tónsmíðadeildin, þar sem Ingibjörg stundar meistaranám, heyrir undir CCM.  Í tónlistarsköpun sinni leggur Ingibjörg áherslu á tækni, meðal annars forritun og upptökur. Ingibjörg lítur svo á að list og tækni séu ekki andstæður og í sameiningu geta þessar ólíku greinar leitt listamenn og áhorfendur um spennandi, ókannaðar slóðir. Einnig leggur Ingibjörg áherslu á rannsóknir á óhefðbundinni notkun raddar með frjálsa snarstefjun (e. free improvisation) og upptökutækni í forgrunni.
 
Ólafur Bogason stundar framhaldsnám í tónlistarverkfræði (e. music technology) við McGill-háskóla í Montreal í Kanada. Þar sérhæfir hann sig í hönnun á nýstárlegum hljóðfærum og rannsakar algóritma sem nýta má við stafrænar vinnslu hljóðs. Dæmi um spennandi verkefni sem Ólafur hefur komið að í gegnum námið er notkun á hreyfiskynjaratækni við hörpuleik, stafræn hermun hljóðgervla og úrvinnsla og greining umhverfishljóða með aðstoð gervigreindar. Ólafur er meðal stofnenda íslenska sprotafyrirtækisins Genki Instruments en það leggur áherslu á þróun stafrænna lausna fyrir tónlistarfólk. Námið við McGill-háskóla hefur nýst Ólafi vel í rannsóknum sem fyrirtækið vinnur að. Áhugasamir geta fylgst með framgangi Genki á Facebook-síðu undir nafni fyrirtækisins.
 
Lena Katarína Lobers hóf meistaranám í viðskiptafræði við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, CBS, í september 2016, en CBS er meðal stærstu viðskiptaháskóla Evrópu. Kjörsvið Lenu í náminu er rekstrarstjórnun, með áherslu á stjórnun aðfangakeðja. Námið miðar að því að nemandinn öðlist góðan skilning á helstu hugtökum, kenningum og líkönum til að hanna og stjórna alþjóðlegum aðfangakeðjum. Markmið þess er enn fremur að nemendur öðlist færni í að hafa áhrif á ákvarðanir á bæði rekstur og stefnumótun fyrirtækja. Lena ætlar að leggja sérstaka áherslu á stjórnun upplýsingaflæðis í aðfangakeðjum í námi sínu.
 
Ingjaldssjóður, minningarsjóður Ingjalds Hannibalssonar prófessors, er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til ávinnings fyrir starf Háskóla Íslands með styrkjum til stúdenta og starfsfólks.
 
Styrktarsjóðir á borð við Ingjaldssjóð eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is