Háskóli Íslands

Íslensk-dönsk orðabók Sigfúsar á vefinn á aldarafmæli

Á þessu ári er þess minnst að eitt hundrað ár eru liðin frá því að fyrsta hefti Íslensk-danskrar orðabókar Sigfúsar Blöndals kom út og af því tilefni verður opnaður vefaðgangur að orðabókinni í haust. Að útgáfunni standa Íslensk-danskur orðabókarsjóður við Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Halldóra Jónsdóttir, Steinþór Steingrímsson og Þórdís Úlfarsdóttir stýra verkefninu en háskólanemar í íslensku og málvísindum munu vinna að því.
 
Íslensk-danskur orðabókasjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1927 af dr. phil. Sigfúsi Blöndal bókaverði og eiginkonu hans cand. phil. Björgu Þorláksdóttur. Sjóðurinn er stofnaður af andvirði fyrsta upplags orðabókarinnar.
 
Á sumardaginn fyrsta árið 1903 hófu Sigfús og Björg Blöndal að semja nýja íslenska orðabók með skýringum á dönsku. Þau voru þá nýgift og bjuggu í Kaupmannahöfn. Í upphafi áætluðu hjónakornin að verkið tæki fimm ár og gætu þau þá sent frá sér nothæfa orðabók. Ekki gekk það eftir enda vatt verkið upp á sig og varð að stærstu skýringaorðabók um íslenskt mál sem enn hefur verið gefin út. Fyrsta bindi orðabókarinnar leit dagsins ljós vorið 1920 en verkið allt kom út árið 1924. Fjöldi manna lagði hönd á plóg við orðabókarvinnuna, yfirlestur og prófarkir en auk þeirra hjóna báru þeir Jón Ófeigsson og Holger Wiehe hitann og þungann af ritstjórninni.
 
Tilgangur Íslensk-dansks orðabókasjóðs er að sjá til þess að framvegis verði jafnan til stór og vönduð íslensk-dönsk orðabók yfir íslenskt og danskt nútímamál. Bókin skal vera ný útgáfa af hinni íslensk-dönsku orðabók Sigfúsar Blöndals og á henni byggð, endurnýjuð eftir þörfum og tekið skal tillit til allra helstu breytinga sem á málunum verða, eftir því sem stundir líða. Þannig megi þróa traust menningarsamband milli þessara landa sérstaklega og Íslands og Norðurlanda yfirleitt.
 
Stjórn sjóðsins skipa Guðrún Kvaran, prófessor emeritus sem er jafnframt formaður stjórnar, Vésteinn Ólason, prófessor emeritus, Jón G. Friðjónsson, prófessor emeritus, og Hrefna Arnalds, fyrrverandi kennari.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is