Háskóli Íslands

Styrkur til rannsóknar á fæðingarorlofi og umönnunarþátttöku einstæðra foreldra

Rannsókn sem miðar að því að kanna fæðingarorlofsnýtingu og umönnunarþátttöku einstæðra foreldra í samanburði við foreldra í hjónabandi eða sambúð hefur hlotið styrk úr Sigrúnarsjóði við Háskóla Íslands en úthlutað var úr sjóðnum í annað sinn þriðjudaginn 5. febrúar sl. Styrkhafi er Íris Dögg Lárusdóttir, doktorsnemi við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, og nemur heildarupphæð styrksins 500.000 krónum.  
 
Meginmarkmið doktorsverkefnis Írisar Daggar er að kanna fæðingarorlofsnýtingu og umönnunarþátttöku einstæðra foreldra, bæði feðra og mæðra, í samanburði við foreldra í hjónabandi eða sambúð með það að markmiði að greina hvernig börn í ólíkum fjölskyldugerðum njóta umönnunar beggja foreldra. Doktorsverkefnið er hluti af stærra rannsóknarverkefni undir stjórn Guðnýjar Bjarkar Eydal, prófessors við Félagsráðgjafardeild, og Ingólfs V. Gíslasonar, dósents við Félagsfræði- mannfræði- og þjóðfræðideild, sem er ætlað að meta langtímaáhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof á atvinnuþátttöku og fjölskyldulíf foreldra sem eignast sitt fyrsta barn. 
 
Rannsóknir á barnafjölskyldum sýna að einstæðir foreldrar búa að mörgu leyti við lakari aðstæður en aðrir foreldrar og skapar það börnum þeirra óhagstæðari uppeldisskilyrði en öðrum börnum. Stefnumótun sem ýtir undir jafna þátttöku beggja foreldra í umönnun barna sinna hefur reynst áhrifarík leið til að draga úr aðstöðumun einstæðra foreldra og hafa vegleg fæðingarorlofsréttindi feðra skipt sköpum þar um. Íslensku fæðingarorlofslögin veita báðum foreldrum jafnan óframseljanlegan rétt til töku fæðingarorlofs án tillits til sambandsstöðu foreldra, búsetu barns og forsjárfyrirkomulags. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir við báða foreldra ásamt því að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Með sjálfstæðum rétti til fæðingarorlofs fengu feður, óháð sambúðarformi, aukin tækifæri til að rækta tengsl við börn sín strax frá fæðingu og leggja grunn að framtíðarsambandi. 
 
Þrátt fyrir ríkan rétt einstæðra feðra til fæðingarorlofstöku hérlendis hafa fyrri niðurstöður rannsóknarverkefnisins sýnt að feður sem deila ekki lögheimili með börnum sínum nýta fæðingarorlof í minna mæli en aðrir foreldrar og er þessu verkefni því ætlað að varpa skýrara ljósi á þá niðurstöðu. Unnið er með gögn úr spurningakönnunum um hvernig foreldrar höguðu vinnu og umönnun barna sinna fyrstu þrjú æviár fyrsta barns ásamt gögnum frá Fæðingarorlofssjóði um orlofsnýtingu foreldra. Styrkurinn úr Sigrúnarsjóði mun nýtast til þess að taka viðtöl við einstæða foreldra í þeim tilgangi að öðlast dýpri skilning á upplifun, reynslu og skipulagningu þeirra á fæðingarorlofi og umönnun barna sinna fyrstu æviárin. Sóst verður eftir að ræða bæði við feður og mæður, foreldra með og án sameiginlegrar forsjár og foreldra úr ólíkum aldurshópum. Viðtalsrannsóknin veitir tækifæri til að öðlast dýpri skilning á svörum foreldra við spurningakönnuninni og auka við þekkingu á upplifun og reynslu einstæðra foreldra á fæðingarorlofstöku og umönnun barna sinna.
 
Sigrúnarsjóð stofnaði Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, en  hún er  einnig stofnandi og stjórnarformaður Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) við Háskóla Íslands. Sigrún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar í menntun, rannsóknum og fræðum í félagsráðgjöf. Meginmarkmið og tilgangur rannsóknasjóðsins er að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf sem snerta hagsmuni barna og fjölskyldna. 
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og dósent sem jafnframt er formaður stjórnar, Helga Sól Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og lektor, og Haldór Sigurður Guðmundsson, félagsráðgjafi og dósent.   
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is