Menntasjóður Hugvísindasviðs Háskóla Íslands hefur verið stofnaður á grundvelli sameiningar fimm styrktarsjóða skólans sem hafa verið óvirkir um árabil. Tilgangur þessa nýja sjóðs er að styrkja doktorsnema við deildir Hugvísindasviðs, einkum þá sem eru á lokastigum náms. Stofnfé sjóðsins er rúmar 64 milljónir króna.
Stofnun sjóðsins og ráðstöfun þeirra fimm sjóða sem leggja grunn að honum er liður í titlekt í sjóðasafni Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Sjóðirnir eru Det Danske Selskabs Studenterlegat (1943), Minningarsjóður dr. Rögnvalds Péturssonar (1960), Minningarsjóður norskra stúdenta (1948), Norðmannsgjöf (1961) og Sögusjóður stúdenta (1930). Mikilvægt er að sjóðir sem eru í eigu háskólans séu virkir og hægt sé að veita úr þeim reglulega og nýta þannig ráðstöfunarfé þeirra til að efla rannsóknir við Háskóla Íslands og þar með þekkingarmiðlun hér á landi um leið og óskum þeirra sem stofnuðu sjóðina er fylgt eftir.
Stjórn sjóðsins er skipuð fimm mönnum. Það eru forseti Hugvísindasviðs og forsetar deilda sviðsins: Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, Íslensku- og menningardeildar, Mála- og menningardeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar. Forseti Hugvísindasviðs er formaður stjórnar.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.