Fjórir styrkir hafa verið veittir úr Minningarsjóði Aðalsteins Kristjánssonar við Háskóla Íslands til rannsókna í raunvísindum. Að þessu sinni voru veittir styrkir til doktorsnema í raunvísindum við Háskóla Íslands sem eru á lokastigi doktorsnáms, án öruggrar fjárveitingar. Styrkhafar eru Alexia Nix, doktorsnemi í eðlisfræði, Evangelos Tsolakidis, doktorsnemi í eðlisfræði, Iram Munir Ahmad, doktorsnemi í efnafræði, og Noemi Löw, doktorsnemi í jarðefnafræði. Heildarupphæð styrkja nemur sex milljónum króna.
Um doktorsverkefni Alexiu Nix: Leitast er við að varpa ljósi á dularfullt eðli skammtaþyngdarfræði með hjálp heilmyndunarkenningarinnar svokölluðu. Heilmyndun tengir saman skammtaþyngdarfræði við aðra skammtakenningu sem er einni vídd færri og felur ekki í sér þyngdarafl. Í þessu verkefni einbeitir Alexia sér að þyngdarfræði í fjórum víddum og tengir hana í gegnum heilmyndun við skammtafræðikenningar í þremur víddum. Þrátt fyrir að þrívíðu kenningarnar séu að sumu leyti einfaldari getur oft verið flókið að vinna með þær vegna sterkra víxlverkana sem þær búa yfir. Lögð er áhersla á valdar mælistærðir og nýtingu nýjustu tóla í skammtasviðsfræði og strengjafræði sem hafa verið þróuð á seinustu áratugum. Útreikningar eru skammtafræðilegs eðlis og munu því veita nýja innsýn í skammtaþyngdarfræði.
Leiðbeinendur Alexiu eru Friðrik Freyr Gautason, lektor við Háskólann í Southampton í Englandi, og Valentina Giangreco M. Puletti, prófessor í stærðfræði við Raunvísindadeild.
Um doktorsverkefni Evangelos Tsolakidis: Skammtasviðsfræðin fjallar um grundvallareðli efnisheimsins og gegnir þannig lykilhlutverki í kennilegri eðlisfræði nútímans. Kvarðakenningar eru undirflokkur skammtasviðskenninga sem lýsa víxlverkunum á milli öreinda í náttúrunni. Hægt er að innleiða mismunandi bjaganir í skammtasviðsfræði, sem hafa áhrif á ýmsar mælanlegar stærðir og fylgniföll. Verkefni Evangelos miðar að því að þróa nýjar aðferðir til að rannsaka bjaganir þar sem kvarðakenningar koma við sögu. Niðurstöður verkefnisins munu veita nýja innsýn í skammtasviðskenningar og bjaganir þeirra í tímarúmi af mismunandi vídd.
Leiðbeinandi Evangelos er Valentina Giangreco M. Puletti, prófessor í stærðfræði við Raunvísindadeild.
Um doktorsverkefni Iram Munir Ahmad: Kjarnsegulspuna- (e. nuclear magentic resonance, NMR) litrófsgreining er mikið notuð við rannsóknir á líffræðilegum sameindum þrátt fyrir að hún sé ekki mjög næm mæliaðferð. Hægt er að nota aukningu á kjarnaskautun (e. dynamic nuclear polarization, DNP) til auka næmi NMR-mælinga mörghundruðfalt, en þessi aðferð byggist á því að flytja skautun frá ópöruðum rafeindum (stakeindum) yfir á kjarna. Í verkefninu er unnið að smíði á stöðugum og vatnsleysanlegum 1,3-bis(diphenylene)-2-phenylallyl (BDPA) stakeindum til notkunar sem skautunarefni DNP-NMR, sem byggist á því að tengja stóra vatnsleysanlega hópa á BDPA með koparhvataðri asíð-alkýn hringálagningu. Samstarfsmenn í Þýskalandi munu ákvarða DNP-NMR eiginleika hinna nýju tvístakeinda. Þær stakeindir sem lýst er geta haft mikil áhrif á rannsóknir með DNP-NMR mælingum í sterku segulsviði, bæði í lausnum og föstum efnum.
Leiðbeinandi Iram er Snorri Þór Sigurðsson, prófessor í efnafræði við Raunvísindadeild.
Um doktorsverkefni Noemi Löw: Meginmarkmiðið er að rannsaka aldur og uppruna Fjallgarða, sem er ílangt kerfi móbergshryggja sem liggja austan við virka gosbeltið norðan Vatnajökuls. Lítið er vitað um uppruna þeirra og verður í þeim hluta verkefnisins sem hér er styrktur notaðar mælingar á samsætum frumefnanna He-Ne-Ar, langlífum geislavirkum samsætum Sr-Nd-Hf-Pb ásamt Ar-Ar aldursgreiningum til að kanna uppsprettu þá sem lagði til efni í Fjallgarða, ásamt því að skorða betur aldur þeirra. Samsætur He-Ne verða kannaðar sérstaklega því gögn sem þegar hefur verið safnað af bólstragleri frá svæðinu benda til tengingar við mið-Ísland og möttulstrókinn sem þar liggur undir. Verkefnið veitir því einstakt tækifæri til að kanna hvernig möttulefni ættað frá miðju landsins dreifist út eftir og samsíða gliðnandi steinhveli.
Leiðbeinendur Noemi eru Sæmundur Ari Halldórsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, og Christoph Beier, prófessor við Háskólann í Helsinki.
Um sjóðinn
Minningarsjóður Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1978 með dánargjöf Aðalsteins Kristjánssonar. Hann bjó lengstum í Winnipeg í Kanada og síðast í Puente í Los Angeles í Kaliforníu. Aðalsteinn lést hinn 14. júlí 1949.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Sigurður S. Snorrason, prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild, sem jafnframt er formaður stjórnar, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Jarðvísindastofnun, og Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor við Raunvísindadeild.
Minningarsjóður Aðalsteins Kristjánssonar er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans.