Háskóli Íslands

Nýr sjóður við HÍ styður íslensku, bókmenntir og ritlist

Minningarsjóður Erlendar Jónssonar og Mörtu Ágústsdóttur í íslensku, bókmenntum og ritlist við Háskóla Íslands hefur verið stofnaður undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirritaði skipulagsskrá sjóðsins ásamt Mörtu Ágústsdóttur, stofnanda sjóðsins. Stofnfé sjóðsins er 10 milljónir króna.

Tilgangur sjóðsins er að efla stöðu íslenskunnar almennt og styrkja nemendur í íslensku, bókmenntum og ritlist við Háskóla Íslands. Sérstaklega skal stutt við verkefni er lúta að ritfærni og þjálfun nemenda við beitingu íslensks máls og við skapandi verkefni nemenda, s.s. ritlistarverkefni og hvers konar bókmenntasköpun á íslensku. Sjóðurinn er opinn nemendum bæði í grunn- og framhaldsnámi við Háskóla Íslands.

Sjóðurinn er stofnaður til minningar um Erlend Jónsson, rithöfund, íslenskukennara og bókmenntagagnrýnanda, og konu hans, Mörtu Ágústsdóttur. 

Rektor Háskóla Íslands skipar úthlutunarnefnd sjóðsins og í henni sitja þau Ásta Kristín Benediktsdóttir, dósent í íslensku, Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í bókmenntafræði, og Rúnar Helgi Vignisson, prófessor í ritlist. 

Stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sem skipuð er af háskólaráði, fer með stjórn sjóðsins. Stjórnina skipa Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði og formaður stjórnar, Valgerður Sólnes, prófessor við Lagadeild, og Jóhann Ómarsson, viðskiptafræðingur og ráðgjafi. Varamaður í stjórn er Sigurður Jóhannesson hagfræðingur.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is