Ingibjörg R. Magnúsdóttir, sérstakur velunnari háskólans og stofnandi Rannsóknasjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur (RIM), heimsótti Háskóla Íslands nýverið og átti fund með Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands
Sjóðinn stofnaði Ingibjörg ásamt Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði árið 2007 en aðrir sem lögðu til stofnfé voru Glitnir, Ljósmæðrafélag Íslands, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið og ýmsir einstaklingar. Þá hefur, Ingibjörg lagt fram viðbótarframlög við stofnfé sjóðsins á árinu 2008 og 2009. Árið 2008 gaf Sigurður Helgason viðbótarframlag við stofnfé sjóðsins að upphæð kr. 1.000.000.
Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði og eru styrkir veittir til hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í doktorsnámi vegna rannsóknarverkefna sem falla að markmiðum sjóðsins.
Úthlutað hefur verið árlega úr sjóðnum síðan árið 2008, alls átján styrkjum til doktorsnema í hjúkrunar- og/eða ljósmóðurfræði, og hefur sjóðurinn verið mikil lyftistöng fyrir rannsóknir í þessum greinum heilbrigðisvísindanna.
Ingibjörg var námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytinu. Hún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði árið 1973.
Sjóðir á borð við Rannsóknasjóð Ingibjargar R. Magnúsdóttur eru mjög mikilvægir fyrir nemendur í doktorsnámi og unga vísindamenn sem eru að hasla sér völ á sviði vísinda. Slíkir sjóðir hérlendis eru ein af grunnforsendum þess að ungir vísindamenn geti sótt um styrki úr stórum erlendum samkeppnissjóðum til rannsóknarverkefna því að nauðsynlegt er að geta sýnt fram á að frumrannsóknir hafi verið stundaðar. Þá er jafnan farið fram á mótframlag og fjárstuðning að heiman ásamt birtingu niðurstaðna rannsókna í ritrýndum vísindatímaritum þegar sótt er um styrki úr alþjóðlegum samkeppnissjóðum.
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur Sjóðurinn starfar eftir staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstæða stjórn. Frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á heimasíðu hans.