Háskóli Íslands

Sextíu milljónir til doktorsnema

Fimmtán doktorsnemar við Háskóla Íslands fengu á dögunum úthlutað vísindastyrkjum úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands. Úthlutun styrkjanna fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Að þessu sinni var úthlutað úr sjóðnum samtals 60 milljónum króna til rannsóknartengdra verkefna á fjölmörgum sviðum, m.a. sagnfræði, matvæla- og næringarfræði, íslensku, sálfræði, uppeldis- og menntunarfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, jarðskjálftaverkfræði, lyfjafræði, íslenskum bókmenntum, kynjafræði, eðlisfræði, eðlisefnafræði, mannfræði og orðabókafræði. Fimm verkefni hljóta styrki til þriggja ára, sex verkefni til tveggja ára og fjórir styrkir eru veittir til doktorsnema sem ljúka rannsóknum á næsta ári. Sex styrkþeganna koma erlendis frá til doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði af þessu tilefni: „Það er áberandi í löndunum í kringum okkur hversu sterkt ákall hefur komið frá atvinnulífinu um aukinn fjölda doktorsmenntaðra. Til að mæta þessu hafa háskólar á Norðurlöndum, og reyndar um allan heim, sett skýra stefnu um fjölgun doktorsnema. Þetta hefur Háskóli Íslands líka gert með áherslu á eflingu vísindastarfs og uppbyggingu doktorsnáms þar sem ströngum alþjóðlegum gæðakröfum er fylgt. Þegar saman koma metnaðarfullir doktorsnemar og öflugir leiðbeinendur verður til kröftugt vísindastarf sem leiðir til verðmætasköpunar á fjölmörgum sviðum. Framlag Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands til stuðnings þessari uppbyggingu Háskóla Íslands er ómetanlegt.“


Úthlutað úr sjóðnum aftur í haust

Rekstur Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands er í umsjá Landsbankans. Ávöxtun sjóðsins hefur verið góð síðastliðin tvö ár sem gerir úthlutun mögulega nú en um er að ræða fjórðu úthlutun úr sjóðnum.

Gunnar Helgi Hálfdanarson, formaður bankaráðs Landsbankans og formaður stjórnar Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands, sagði í tilefni dagsins: „Hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja er að styðja við menntun og rannsóknir og fjárfesta með því í hugviti og þekkingu framtíðarinnar. Sá stuðningur kemur á endanum öllu samfélaginu til góða því menntun leggur grunn að fjölbreyttu og kröftugu samfélagi. Ný þekking knýr áfram nýsköpun í atvinnulífinu og þar með hagvöxt sem er undirstaða efnahagslegra framfara og að mati margra aukinnar velferðar í framtíðinni. Það er einstaklega ánægjulegt að vera aðili að Háskólasjóðnum og taka þátt í úthlutun úr honum til okkar efnilegustu vísindamanna.“

Í tilefni 100 ára afmælis Háskóla Íslands hefur verið ákveðið að úthluta viðbótarstyrkjum í byrjun september. Margar mjög góðar umsóknir voru meðal þeirra 170 umsókna sem bárust að þessu sinni og verður valið úr þeim við úthlutun í september. Fjöldi viðbótarstyrkja fer eftir því hvernig sjóðurinn ávaxtast en útlit er fyrir að heildarúthlutun á árinu nálgist um 100 milljónir króna. Umsækjendum sem til álita koma vegna aukaúthlutunar hefur þegar verið tilkynnt um það.

Nánari upplýsingar um rannsóknir styrkþega er að finna hér (.pdf)

Um Háskólasjóð H/f Eimskipafélags Íslands
Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var settur á laggirnar af Vestur-Íslendingum árið 1964 þegar þeir lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta til náms við Háskóla Íslands.

Sjóðurinn er í vörslu Landsbankans og hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2005. Það ár voru gerðar veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi sjóðsins með það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum eftir þær breytingar fór fram árið 2006 og síðan hefur á sjötta tug doktorsnema á sviðum raunvísinda, hugvísinda, heilbrigðisvísinda, menntavísinda og félagsvísinda stundað rannsóknir og nám við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins. 

Í úthlutunarreglum sjóðsins segir að um styrki geti sótt stúdentar sem uppfylla inntökuskilyrði viðkomandi deildar í doktorsnám og fastráðnir kennarar eða sérfræðingar við Háskóla Íslands sem ráðnir eru á grundvelli hæfnisdóms og uppfylla kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í formlegum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Stjórn Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands skipa Gunnar Helgi Hálfdanarson, formaður bankaráðs Landsbankans, Steinþór Pálsson bankastjóri og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is