Háskóli Íslands

Styrkir til doktorsnema á Hugvísindasviði

Þrír styrkir hafa verið veittir til doktorsnema úr Menntasjóði Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Styrkhafar eru Pontus Erik Gunnar Järvstad, doktorsnemi í sagnfræði, Rósa María Hjörvar, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði, og Sylvia Marsibil Bates, doktorsnemi í sagnfræði.
 
Hvert þeirra hlaut styrk að upphæð 700.000 krónur til að leggja lokahönd á doktorsverkefni sitt.
 
Þetta er í fjórða sinn sem veittur er styrkur úr Menntasjóði Hugvísindasviðs en markmið hans er að styrkja doktorsnema við deildir Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, einkum þá sem eru á lokastigum náms.
 
Doktorsverkefni Pontusar Eriks Järvstad fjallar um birtingarmyndir andfasisma á Norðurlöndum á tímabilinu 1945–1975. Sjónum verður beint að fjöldahreyfingum, svonefndum norrænu nefndum,  sem tileinkuðu sér orðræðu um andfasisma og reist var á minningum um sögulegan fasisma. Samkvæmt henni lifði fasisminn áfram góðu lífi undir einræðisstjórn á Spáni, í Grikklandi og Portúgal eftir síðari heimsstyrjöld.  Norrænu nefndirnar mótmæltu einræði og pyntingum í þessum ríkjum og unnu með flóttafólki og pólitískum föngum þaðan. Í ritgerðinnni verður m.a. greint hvernig hugmyndin um „samfylkingarstefnu“ (e. Popular front) á millistríðsárunum var notuð í þverþjóðlegu starfi hreyfinganna.  Sérstök áhersla verður lögð á þær nefndir sem unnu gegn herstjórninni í Grikklandi (1967–1974), en þær höfðu víðtæk pólitísk tengsl við ráðamenn á Norðurlöndum og gríska stjórnarandstæðinga. Skoðað verður hvaða áhrif nefndirnar höfðu á utanríkisstefnu norrænu ríkjanna og alþjóðlegar stofnanir eins og Evrópuráðið og Atlantshafsbandalagið sem og samfélagsumræðu á Norðurlöndum. Loks verður vikið að endalokum nefndanna eftir þær pólitísku stjórnkerfisbreytingar sem urðu í Grikklandi, á Spáni og í Portúgal á 8. áratug 20. aldar.  
 
Pontus Järvstad lauk BA- og MA-prófi í sagnfræði frá Háskóli Íslands. Hann hefur sinnt aðstoðarkennslu í sagnfræði og birt fræðigreinar um andfasisma í íslensku og alþjóðlegu samhengi.
 
Doktorsverkefni Rósu Maríu Hjörvar nefnist „Hann varð mælskur af bræði“  og fjallar um reiði í íslenskum nútímabókmenntum. Þar er rýnt í birtingarmyndir reiði í Tómasi Jónssyni metsölubók eftir Guðberg Bergsson (1966), Innansveitarkroniku (1970) Halldórs Laxness og Höfundi Íslands (2001) eftir Hallgrími Helgason. Reiði á sér langa textasögu og hefur verið áberandi þema í ýmsum bókmenntahefðum. Í verkefninu er reiðin sett í samhengi við eftirlendufræði og verkin greind með hliðsjón af hugmyndum um heimsveldi og rými nýlendunnar. Reiðin er skoðuð í samhengi við hugmyndir um sjálf, ímynd þjóðar og ríkjandi karlmennskur. Með vali á verkum er lögð áhersla á íslenskan módernisma og seina innreið hans, sem tengist fagurfræðilegum áherslum aldamótakynslóðarinnar og sjálfstæðisbarráttu. Reiðin áberandi þema í íslenskum módernisma. Reynt verður að svara því hvernig reiðin í verkunum tengist bókmenntasögulegri þróun og menningarumræðu á 20. öld og hvernig þessi umbrot og átök tengjast hugmyndum um þjóðarsjálf og kyngervi. 
 
Rósa María Hjörvar er með MA-próf í almennri bókmenntafræði frá Kaupmannahafnarháskóla og hefur lagt stund á rannsóknir á norrænum bókmenntum í samhengi síðnýlendufræða. Rósa starfar sem stundakennari samhliða doktorsnámi og skrifum.
 
Doktorsverkefni Sylvíu Marsibil Bates fjallar um tæknibreytingar í nútímaþróun fiskveiða en þær hafa lítt verið rannsakaðar. Í þessu verkefni er í fyrsta sinn tekin til rannsóknar uppfinning og þróun flotvörpunnar, eins afkastamesta veiðarfæris í heiminum. Kannað er stórt og flókið net uppfinningamanna og stofnana í mörgum löndum, þ. á m. Íslandi, sem unnu að þróun flotvörpunnar, og hvernig samskipti þeirra og áhrif knúðu tæknibreytingar áfram. Uppfinningarferlið er rakið með því að skoða nákvæmlega breytingar á hönnun flotvörpunnar í tímans rás og metið hvaða áhrifaþættir koma við sögu nýrra hugmynda og hönnunar. Uppfinning flotvörpunnar er ágætur gluggi inn í það ferli sem á sér stað þegar ný fiskveiðitækni er þróuð. Auk þess að fylgja eftir uppfinningamönnunum og framvindu hönnunar verður starf frumkvöðlanna og hugmyndirnar sem knúðu þá áfram kynntar, en einnig þáttur stofnana og stjórnvalda í að örva þessa nýju tækni. Að endingu verður rýnt í efnhagslega þýðingu flotvörpunnar með því að kanna áhrif hennar á fiskafla og framleiðni í veiðum. 
 
Sylvía Marsibil Bates lauk BA-prófi í fornleifafræði frá Háskólanum í Kent í Bretlandi og MA-prófi í neðansjávarfornleifafræði frá Syddansk Universitet í Esbjerg. Hún hefur einnig starfað við Síldarminjasafn Íslands. 
 
Um sjóðinn
Menntasjóður Hugvísindasviðs Háskóla Íslands var stofnaður árið 2018 og byggist á safni sjóða sem tengjast fræðigreinum innan sviðsins. Markmið sjóðsins að styðja við doktorsnám á sviðinu og þá einkum doktorsnema sem eru á lokastigum náms. Sjóðirnir sem mynda Menntasjóðinn eru Det Danske Selskabs Studenterlegat (1943), Forlagsboghandler, Dr. Phil. h.c. Ejnar Munkgaards Stiftelse til Fordel for Det filosofiske Fakultet ved Islands Universitet i Reykjavik (1938), Minningarsjóður dr. Rögnvalds Péturssonar (1960), Minningarsjóður norskra stúdenta (1948), Norðmannsgjöf (1961) og Sögusjóður stúdenta (1930). 
 
Samkvæmt stofnskrá sjóðsins er stjórn hans skipuð forsetum deilda Hugvísindasviðs (Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, Íslensku- og menningardeildar, Mála- og menningardeildar og Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði), en sviðsforseti er formaður stjórnar. 
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is