Þrír doktorsnemar í hjúkrunarfræði hlutu í dag, 2. október, styrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Styrkhafarnir eru: Marianne Elisabeth Klinke, MS í hjúkrunarfræði, Rannveig J. Jónasdóttir, MS í hjúkrunarfræði og Þórunn Scheving Elíasdóttir, MS í hjúkrunarfræði. Heildarupphæð styrkjanna nemur einni milljón króna. Þetta í fimmta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en hann var stofnaður við Háskóla Íslands í júní árið 2007.
Doktorsrannsókn Marianne Elisabeth Klinke fjallar um gaumstol (e. neglect) eftir slag í hægra heilahveli en það er frekar algengt. Gaumstol dregur úr möguleikum einstaklinga á endurhæfingu vegna takmarkaðs innsæis þeirra í eigin getu. Þetta getur leitt til skertrar hæfni til hreyfingar, minni hæfileika til sjálfsumönnunar sem eykur hættu á meiðslum, minni þátttöku auk meira álags á þá sem annast slíka sjúklinga . Klínískt matstæki fyrir hjúkrun til að meta gaumstol vantar og þekkingu skortir á því hvernig gaumstol birtist til lengri tíma litið á pappírs/blýantsprófi borið saman við kerfisbundið klínískt mat. Þekkingu skortir á reynslu sjúklinga með gaumstol og aðstandenda þeirra. Markmið rannsóknarinnar að veita vistfræðilega réttmætar ábendingar um mat og meðferð með því að kanna klínískar birtingarmyndir og þróun gaumstols til lengri tíma litið. Markmiðið er jafnframt að lýsa reynslu þeirra sem fengið hafa heilaslag og aðstandenda þeirra af gaumstoli og almennri sjálfsbjargargetu.
Doktorsrannsókn Rannveigar J. Jónasdóttur er framsýn samanburðarrannsókn á áhrifum eftirgæslu sjúklinga sem útskrifast af gjörgæsludeild. Þar er áhersla lögð á heilsufar, lífsgæði, starfsfærni og sálræn einkenni. Bráð, alvarleg veikindi og lega á gjörgæsludeild geta haft langvarandi áhrif á heilsu og líðan einstaklinga. Vegna hins hæga bataferils hefur á síðustu árum verið mælt með því að gjörgæslustarfsfólk veiti sjúklingum eftirgæslu eftir útskrift af gjörgæslu. Ávinningur eftirgæslu hefur lítið verið rannsakaður. Markmið rannsóknarinnar er að mæla ávinning af eftirgæslu hjá sjúklingum sem legið hafa þrjá sólarhringa eða lengur á gjörgæsludeild og hjá nánasta aðstandanda þeirra. Mælingarnar verða gerðar við útskrift af almennri legudeild, þremur og tólf mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Þátttakendahóparnir í rannsókninni eru tveir. Gjörgæsluhjúkrunarfræðingar sinna eftirgæslu hjá báðum hópunum og felst hún í eftirliti með ástandi sjúklings, líkamlegu og sálrænu mati og stuðningi við sjúkling og nánasta aðstanda hans. Tilraunahópurinn fær, umfram samanburðarhópinn, upplýsingar við brottför af gjörgæslu, hjúkrunarfræðing í daglegar heimsóknir á legudeild til eftirlits, símtal í fyrstu viku eftir útskrift af sjúkrahúsi og viðtal þremur mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Samanburðarhópurinn fær hefðbundna þjónustu sem felst í reglubundnu eftirliti á legudeild.
Doktorsverkefni Þórunnar Scheving Elíasdóttir ber heitið: „Er hægt að mæla hlutþrýsting og mettun súrefnis í systemísku slagæðablóði í sjónhimnuæðum með sjónhimnu-súrefnismettunarmæli?“ Meginmarkmið verkefnisins er að þróa og prófa aðferð til að mæla súrefnismettun í miðlægri blóðrás sjúklinga. Það hefur hingað til ekki verið mögulegt án ífarandi inngripa. Mælingar á súrefnismettun í útlægri blóðrás, s.s. í fingri, verða t.d. óáreiðanlegar í losti eftir alvarleg slys og við bráða sjúkdóma en líkaminn dregur úr útlægri blóðrás við slíkar aðstæður. Verkefnið er unnið í samvinnu við rannsóknahóp innan Landspítala og Háskóla Íslands sem hefur þróað nýjan súrefnismæli fyrir sjónhimnu. Frumathuganir á þessum súrefnismæli hafa sýnt marktæka fylgni milli súrefnismettunar í sjónhimnuæðum og meginslagæðum og lágs gildis súrefnis í slagæðablóðinu og virðist sem tækið endurspegli betur miðlæga súrefnismettun en t.d. fingurmælir. Sjónhimnan er hluti af miðtaugakerfinu og sjónhimnuæðar því miðlægar æðar sem samsvara súrefnisástandi miðtaugakerfisins að nokkru leyti. Í doktorsverkefninu verður geta tækisins til að meta súrefnisskort í miðlægum æðum sannreynd. Þetta verður m.a. gert með því að skoða þrjá hópa fólks með kerfisbundna sjúkdóma sem valda súrefnisskorti. Um er að ræða langvinna lungnasjúkdóma, hjartabilun og carotid stenosis. Niðurstöðurnar verða bornar saman við heilbrigðan samanburðarhóp. Niðurstöður rannsóknarinnar, ásamt frekari tækniþróun, gætu verulega fjölgað þeim úrræðum sem um verður að velja til að meta súrefnisbúskap hjá sjúklingum í bráðum klínískum aðstæðum.
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur vinnur að því að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir sjóðurinn styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum sjóðsins. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973. Rannsóknasjóðurinn er fyrst og fremst styrktur með sölu minningarkorta og gjafafé.