Háskóli Íslands

Styrktur til rannsókna á horfum sjúklinga með heilaskaða í heimsfaraldri

Bergmundur Bolli H. Thoroddsen, þriðja árs nemi í læknisfræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr Menntasjóði Læknadeildar til að vinna að rannsóknarverkefni við Kaupmannahafnarháskóla og Rigshospitalet í Danmörku. Rannsóknin beinist að áhrifum heimsfaraldurs COVID-19 og flutnings heila- og taugagjörgæsludeildar á horfur sjúklinga með bráðan heilaskaða. Styrkupphæðin er 350.000 krónur. 
 
Rannsóknarverkefni Bergmundar ber heitið „Effects of COVID-19 and Ward Relocation on Neuro-ICU“. Starfsfólk heila- og taugagjörgæsludeildar Rigshospitalet stóð frammi fyrir tveimur megináskorunum árið 2020, heimsfaraldri COVID-19 og flutningum deildarinnar í nýtt húsnæði. Heimsfaraldurinn hefur haft talsverð áhrif á marga anga heilbrigðisþjónustu en áhrif faraldursins á sjúklinga í Danmörku með bráðan skaða í miðtaugakerfi eru ekki þekkt, en undir það falla m.a. heilaáverkar og heilablæðingar. Seinni part árs 2020 fluttist heila- og taugagjörgæsludeild Rigshospitalet í nýtt húsnæði en ekki er vitað hvaða áhrif flutningarnir höfðu á sjúklinga deildarinnar. Kannaðar voru innlagnir og sex mánaða dánartíðni hjá öllum sjúklingum deildarinnar á umræddu tímabili en þar að auki hvernig sjúklingum með svokallaða innanskúmsblæðingu í heila (e. subarachnoid haemorrhage) vegnaði í daglegu lífi sex mánuðum eftir veikindin. Verkefnið er unnið undir handleiðslu Kirsten Møller prófessors ásamt meðleiðbeinendum.  
 
Um sjóðinn
Menntasjóður Læknadeildar var stofnaður árið 2019  og hefur það markmið að styðja nemendur í Læknadeild til náms, rannsókna eða símenntunar erlendis ásamt því að styrkja fyrirlestrahald eða fræðslustarf í læknavísindum hérlendis. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.
 
Sjóðurinn grundvallast á safni sjóða sem tengjast Læknadeild og læknavísindum og voru sameinaðir. Sjóðirnir eru: Legat Guðmundar Magnússonar prófessors og Katrínar Skúladóttur (1922), Minningarsjóður John McKenna Pearson (2001) og Starfssjóður Læknadeildar (1987).
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is