Háskóli Íslands

Á þriðja tug fær styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum

Sextán nemendur og fræðimenn við Háskóla Íslands og sex japanskir nemendur og fræðimenn fá styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands í ár. 
 
Þetta er í þrettánda sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum en hann hefur það að markmiði að styrkja fræðileg tengsl milli Háskóla Íslands og Japans. Sjóðurinn grundvallast á fimm milljóna bandaríkjadala gjöf frumkvöðulsins og Íslandsvinarins Toshizo Watanabe til Háskóla Íslands, en um er að ræða eina stærstu peningagjöf sem einstaklingur hefur fært skólanum. 
 
Styrkþegar úr hópi nemenda í ár eru á öllum stigum háskólanáms og munu þeir dvelja næsta vetur við nám ýmist í Japan eða við Háskóla Íslands. Styrkir til fræðimanna nýtast þeim hins vegar til rannsóknardvalar ýmist við japanskar vísindastofnanir eða Háskóla Íslands. Samanlagt nemur styrkupphæðin í ár 17,4 milljónum króna.
 
Á athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands í dag veittu styrkþegar og fulltrúar þeirra styrkjunum viðtöku en vegna kórónuveirufaraldursins hefur slík athöfn ekki verið haldin síðan 2019. Stofnandi sjóðsins, Toshizo Watanabe, átti því miður ekki heimangengt en sendiherra Japans á Íslandi, Ryotaro Suzuki, var viðstaddur athöfnina og flutti þar ávarp ásamt Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra og stjórnarmanni í Watanabe-styrktarsjóðnum.
 
Alls bárust sjóðnum 32 umsóknir í ár og hlutu eftirtaldir styrk:
 
Nemendur Háskóla Íslands sem hljóta styrk til námsdvalar í Japan
  • Abel Haukur Guðmundsson, MS-nemi í tölvunarfræði, hlaut styrk til náms við Kyoto-háskóla.
  • Auður Gréta Þórisdóttir, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við Kwansei Gakuin háskóla.
  • Daníel Óskarsson, MS-nemi í lyfjafræði hlaut styrk til náms við Innovation Center of Nanomedicine (iCONM) Kawasaki. 
  • Esja Sigurðardóttir, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við Seikei-háskóla.
  • Esther Mee Hwa Herman, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við  Gakushuin-háskóla.
  • Freydís Xuan Li Hansdóttir, BS-nemi í hugbúnaðarverkfræði, hlaut styrk til náms við Kyoto-háskóla.
  • Han Xiao, doktorsnemi í líffræði, hlaut styrk til rannsóknardvalar við Kyoto-háskóla.
  • Jowita Magdalena Kumek, doktorsnemi í jarðvísindum, hlaut styrk til rannsóknardvalar við Kochi-háskóla.
  • Ingibjörg Björgvinsdóttir, MS frá HÍ, hlaut styrk til doktorsnáms í líffræðilegri haffræði við Tokyo University of Marine Science and Technology.
  • Patrik Snær Kristjánsson, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við Osaka Gakuin háskóla.
  • Svandís Rafnsdóttir, BA-nemi í japönsku máli og menningu, hlaut styrk til náms við Kansai Gaidai háskóla.    

Japanskir nemendur sem hljóta styrk til náms við Háskóla Íslands

  • Ai Katabe, BA-nemi í félagsfræði við ICU.
  • Asuka Nakashizu, BA-nemi í sagnfræði við ICU.
  • Haruhiko Fukuhara, BA-nemi í íslensku sem öðru máli við Tokyo-háskóla.    
  • Mashiho Kaneko, MA-nemi í enskum  samanburðarbókmenntum við Waseda-háskóla.
  • Mayu Tomioka, MA-nemi í alþjóðlegu námi í menntunarfræði við Háskóla Íslands.
Fræðimenn við Háskóla Íslands sem fá styrk til rannsóknadvalar í Japan
  • Charla Jean Basran, nýdoktor í sjávarlíffræði, hlýtur styrk til dvalar við Kobe-háskóla.
  • Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði, hlýtur styrk til dvalar við Kyoto Medical Centre.
  • Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki, hlýtur styrk til dvalar við Tokyo-háskóla.
  • Svala Guðmundsóttir, prófessor í viðskiptafræði, hlýtur styrk til dvalar við Doshisha-háskóla.
  • Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, hlýtur styrk til dvalar við Waseda-háskóla.
Japanskur fræðimaður sem fær styrk til rannsóknadvalar við Háskóla Íslands
  • Hiroshi Tamura, prófessor í efnafræði við Kansai-háskóla.
 
Stjórn Watanabe-styrktarsjóðsins skipa Kristín Ingvarsdóttir, lektor við Mála- og menningardeild og formaður stjórnar, Toshizo "Tom" Watanabe, stofnandi sjóðsins, og Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is