Háskóli Íslands

Vel á annað hundrað umsóknir um doktorsstyrki

Háskóla Íslands hafa borist 158 umsóknir um doktorsstyrki við skólann en umsóknarfrestur rann út 29. janúar sl. Styrkirnir eru veittir úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og er markmið þeirra að efla Háskóla Íslands sem alþjóðlegan rannsóknaháskóla og gera hann eftirsóknarverðan fyrir doktorsnema.

Til viðbótar við almenna styrki var í fyrsta skipti auglýst eftir umsóknum um styrki sem eru bundnir sérstökum viðfangsefnum. Annars vegar er um að ræða styrki sem fjármagnaðir eru af ISAVIA og skulu tengjast rannsóknum á flugstarfsemi. Hins vegar verður styrkt eitt verkefni, sem skal tengjast rannsóknum á hvítblæði. Sá styrkur er fjármagnaður af dánarbúi Ásrúnar Einarsdóttur.

Umsóknirnar skiptast þannig eftir sviðum: Félagsvísindasvið: 23 umsóknir, Heilbrigðisvísindasvið: 49 umsóknir, Hugvísindasvið: 34 umsóknir, Menntavísindasvið: 12 umsóknir og Verkfræði- og náttúruvísindasvið: 40 umsóknir.

Sérstök úthlutunarnefnd úthlutar styrkjum úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins en vísindanefnd háskólaráðs úthlutar styrkjum úr Rannsóknasjóði háskólans. Sjá frekar um reglur doktorssjóða.

Við mat á umsóknum er tekið mið af gæðum verkefnanna, virkni leiðbeinenda og hæfni nemanda. Sjá nánar um viðmið við mat á umsóknum.

Styrkirnir eru veittir til rannsóknarverkefna doktorsnema og leiðbeinanda en einnig eru vísindamönnum veittir styrkir til að ráða til sín doktorsnema við Háskóla Íslands.

Í samræmi við stefnu Háskóla Íslands hefur verið lögð sérstök áhersla á eflingu doktorsnáms og styrki til doktorsnema við skólann. Efling doktorsnáms við háskólann styrkir stöðu hans sem alþjóðlega viðurkennds rannsóknaháskóla og gerir honum kleift að sinna hlutverki sínu sem æðsta menntastofnun þjóðarinnar. Öflugur rannsóknaháskóli er frumskilyrði þess að Íslendingar séu samkeppnisfærir á vettvangi vísinda, nýsköpunar og atvinnuþróunar innan þekkingarsamfélags þjóðanna.

Þetta verður í sjöunda skipti sem doktorsstyrkjum er úthlutað, bæði úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Síðast var úthlutað úr sjóðunum vorið 2012, alls tuttugu og fjórum vísindastyrkjum til rannsóknatengdra verkefna á ólíkum sviðum.

Nánari upplýsingar er að finna á síðu um doktorsstyrki við Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is