Háskóli Íslands

Reglur Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands

Nýjar reglur doktorsstyrkjasjóðs Háskóla Íslands hafa tekið gildi og við það falla reglur hér að neðan úr gildi. 

________________________________________________________________________

Reglur um styrki úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands til stúdenta í doktorsnámi við Háskóla Íslands
Samþykktar í háskólaráði 8. desember 2016

1. Tilgangur

Tilgangur Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands er að stuðla að velgengni Háskóla Íslands og styrkja efnilega stúdenta til náms við skólann. Markmið styrkja úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands er að efla háskólann sem alþjóðlegan rannsóknaháskóla og gera hann eftirsóknarverðan kost fyrir doktorsnema.

Breytingar á reglum þessum skulu staðfestar í háskólaráði og kynntar sérstaklega í tengslum við auglýsingar sjóðsins. Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands skal árlega, að lokinni úthlutun, gera stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands og háskólaráði grein fyrir styrkveitingum undangengins árs og starfseminni framundan.

2. Vísinda- og nýsköpunarsvið og stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands

Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands annast úthlutun úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands í umboði stjórnar Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands, sem ákveður árlega heildarfjárhæð til ráðstöfunar til styrkþega.

Stjórn Rannsóknasjóðs Íslands er skipuð fimm formönnum fimm sjálfstæðra fagráða, einu fyrir hvert svið. Formaður er skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Rektor skipar fagráðin, sem í sitja fjórir til fimm sérfræðingar og þar af skal einn vera í meginstarfi utan háskólans. Hlutverk fagráða er að annast faglegt mat og forgangsröðun umsókna í Háskólasjóð Eimskipafélags Íslands. Formenn fagráða halda reglulega samráðsfundi meðan á mati umsókna stendur. Faglegt mat skal byggja á viðmiðum sem vísindanefnd háskólaráðs setur.

Verkefnisstjóri vísinda- og nýsköpunarsviði háskólans starfar með stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands og fagráðum. Vísinda- og nýsköpunarsvið Háskóla Íslands hefur umsjón með auglýsingu um styrki, upplýsingagjöf, móttöku og meðferð umsókna í umboði stjórnar Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands.

Kostnaður vegna vinnu stjórnar Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands og fagráða er greiddur af Háskóla Íslands.

3. Umsækjendur

Stúdentar sem uppfylla inntökuskilyrði viðkomandi deildar í doktorsnám og fastráðnir kennarar eða sérfræðingar við Háskóla Íslands, sem ráðnir eru á grundvelli hæfnisdóms og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í Viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, geta sótt um styrk til sjóðsins.

4. Umsóknir

Umsóknir til sjóðsins geta verið af tvennum toga:

a) Stúdent og leiðbeinandi sækja til sjóðsins í sameiningu.

b) Leiðbeinandi sækir um án stúdents.

Hljóti leiðbeinandi vilyrði um styrk án stúdents skal leiðbeinandi auglýsa styrkinn til umsóknar. Leiðbeinandi hefur að hámarki fjóra mánuði til að velja stúdent. Að þeim tíma liðnum fellur vilyrði um styrk niður. Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands metur hvort sá stúdent sem leiðbeinandi velur uppfylli skilyrði reglna þessara.

Umsóknum skulu fylgja:

·         Greinargerð um rannsóknarverkefnið, markmið þess og vísindalegt gildi,

·         ferils- og ritaskrá stúdents (leið a) og leiðbeinanda,

·         námsáætlun stúdents (leið a), stutt greinargerð um aðstöðu til námsins og

·         önnur gögn sem styrkt geta umsókn, s.s. meðmæli.

 

Umsókn skal að jafnaði vera á íslensku, en heimilt er að leggja inn umsókn á ensku.

5. Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er að jafnaði til 15. janúar fyrir komandi háskólaár og skal úthlutun lokið í mars. Rektor er heimilt að ákveða aðra umsóknarfresti. Auglýsing um umsóknarfrest skal birt eigi síðar en mánuði fyrir umsóknarfrest.

6. Mat á umsóknum

Við mat á umsóknum skal m.a. litið til eftirfarandi þátta:

·         Vísindagildis fyrirhugaðs rannsóknarverkefnis,

·         frammistöðu nemenda í grunn- og framhaldsnámi (leið a),

·         námsáætlunar (leið a),

·         rannsóknavirkni leiðbeinanda,

·         hvort aðstaða í deild sé fullnægjandi og

·         frágangs umsóknar.

7. Skyldur styrkþega

Styrkþegi skal sinna doktorsnáminu í fullu starfi meðan hann nýtur stuðnings sjóðsins og skal ekki sinna öðru starfi á styrktímabilinu, enda skal hann stunda fullt nám samkvæmt 53. gr. sameiginlegra reglna háskólans og námsframvindureglum viðkomandi deildar. Deild getur falið styrkþega verkefni á sviði kennslu eða rannsókna eða samþykkt að hann taki að sér slík verkefni fyrir aðra aðila, enda nemi verkefnin í heild ekki meira en 20% af fullu starfi. Sérstaklega skal greiða fyrir þetta vinnuframlag styrkþega.

8. Fjárhæð styrkja og greiðslufyrirkomulag

Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands tekur árlega ákvörðun um fjárhæð styrkja. Stúdentinn er styrkþeginn og rennur styrkurinn óskiptur til framfærslu hans. Styrkurinn er greiddur út í jöfnum greiðslum, 1. hvers mánaðar á styrktímabilinu. Vísinda- og nýsköpunarsvið gerir samning við styrkþega um mánaðarlegar greiðslur í samræmi við námsáætlun. Samningur þessi skal endurskoðaður árlega í samræmi við framvindu námsins, sbr. 10. tl.

10. Framvinda doktorsnáms

Leiðbeinandi og doktorsnemi skila vísinda- og nýsköpunarsviði árlega (15. janúar) sameiginlegri framvinduskýrslu, þar sem þeir gera grein fyrir stöðu doktorsnáms og –verkefnis. Skil á framvinduskýrslu eru á ábyrgð leiðbeinanda og stúdents. Fullnægjandi framvinduskýrsla er forsenda styrkgreiðslna.

Eigi síðar en tveimur mánuðum eftir doktorsvörn skila leiðbeinandi og nýdoktor eintaki af doktorsritgerð Síðasta mánaðargreiðsla styrks er innt af hendi þegar doktorsritgerð berast vísinda- og nýsköpunarsviði.

11. Viðurkenning og kynning verkefna
Leiðbeinandi og doktorsnemi skulu geta sjóðsins í þeim ritsmíðum sínum sem tengjast styrk sjóðsins. Að úthlutun lokinni skal kynna opinberlega þau verkefni sem hlutu styrk.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is