Háskóli Íslands

Mælingar á súrefnismettun í miðlægri blóðrás með sjónhimnu-súrefnismæli

Þórunn Scheving Elíasdóttir, doktorsnemi í hjúkrunarfræði við Hjúkrunarfræðideild HÍ

„Meginmarkmið doktorsverkefnisins er að þróa og prófa aðferð til að mæla súrefnismettun í miðlægri blóðrás sjúklinga sem hingað til hefur ekki verið mögulegt án ífarandi inngripa“, segir Þórunn Scheving Elíasdóttir, sem hefur hlotið styrk til rannsóknarinnar úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur .

„Mælingar á súrefnismettun  í útlægri blóðrás s.s í fingri verða t.d. óáreiðanlegar í losti eftir alvarleg slys og við bráða sjúkdóma, en líkaminn dregur úr blóðflæði til útlima við slíkar aðstæður“, segir  Þórunn. Verkefnið er unnið í samvinnu við rannsóknahóp innan Landspítala og Háskóla Íslands, sem hefur þróað nýjan sjónhimnu-súrefnismæli.

Að sögn Þórunnar hafa frumathuganir á þessum súrefnismæli sýnt marktæka fylgni súrefnismettunar í sjónhimnuæðum og meginslagæðum sem og lágs gildis súrefnis í slagæðablóðinu og virðist sem tækið endurspegli betur miðlæga súrefnismettun en t.d. fingurmælir.  „Sjónhimnan er hluti af miðtaugakerfinu og sjónhimnuæðar því miðlægar æðar sem samsvara súrefnisástandi miðtaugakerfisins að nokkru leyti.  Í rannsóknum verður geta tækisins til að meta súrefnisskort í miðlægum æðum sannreynd. Þetta verður m.a. gert með því að skoða þrjá hópa fólks með kerfisbundna sjúkdóma sem valda súrefnisskorti.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða bornar saman við heilbrigðan samanburðarhóp. Þær gætu, ásamt frekari tækniþróun, bætt verulega úr þeim úrræðum sem um verður að velja við mat á súrefnisbúskap sjúklinga í bráðum klínískum aðstæðum.

Þórunn lauk MS-prófi í svæfingahjúkrun frá Columbia University í New York árið 2005.  Hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands vorið 2012 undir handleiðslu dr. Guðrúnar Kristjánsdóttur prófessors og dr. Einars Stefánssonar prófessors.  Þórunn hefur frá árinu 2011 starfað með hópi vísindamanna að rannsóknum á súrefnismælingum í augnbotnum undir forystu Einars Stefánssonar.

Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur vinnur að því að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir sjóðurinn styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum sjóðsins. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973. Rannsóknasjóðurinn er fyrst og fremst styrktur með sölu minningarkorta og gjafafé.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is