Háskóli Íslands

Meðferðarúrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og MS í heilbrigðisvísindum

Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og MS í heilbrigðisvísindum, gerði rannsókn sem miðar að því að þróa þverfagleg meðferðarúrræði fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis í æsku. „Einnig að skoða heilsufar og líðan karla með sögu um kynferðislegt ofbeldi í æsku,“ segir Sigrún, sem var einn þriggja styrkþega úr Rannsóknarsjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur.

„Kveikjan að rannsókninni var meistararannsókn mín sem ég vann við Háskólann á Akureyri þar sem ég skoðaði heilsufar og líðan kvenna með sögu um kynferðislegt ofbeldi í æsku.Ég sá þá að mjög svo vantaði samskonar rannsóknir fyrir karla ásamt því að meðferðarúrræðum var mjög ábótavant hér á landi.“ Sigrún valdi viðfangsefnið útfrá starfsreynslu sinni. „Áhugi minn á afleiðingum sálrænna áfalla og ofbeldis kveiknaði er ég starfaði sem lögreglukona á árum áður og stundaði nám í lögregluskóla ríkisins, ásamt því að vinna um tíma á geðdeild. Ég sá þar hvað slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar og mikil þörf var á auknum umræðum.“

Sigrún segir að rannsóknin muni geta víkkað sjóndeildarhring fagfólks og almennings um hversu alvarlegar afleiðingar kynferðislegt ofbeldi í æsku getur haft fyrir einstaklinga, heilsufar, lífsgæði og allt umhverfi þeirra. „Þannig mun fagfólk, sem vinnur með einstaklingum með slíka sögu, veitt betri þjónustu og mætt einstaklingum með auknum skilningi. Fyrir samfélagið í heild mun rannsóknin geta aukið þekkingu þannig að einstaklingar með slíka sögu fái skilning.“ Auk þess segir Sigrún að með slíkri rannsókn gefist kostur á því að veita einstaklingum, sem beittir hafa verið kynferðisofbeldi í æsku, betri aðstoð við að vinna úr sínum vandamálum með heildrænum, þverfaglegum vinnubrögðum þar sem einstaklingnum er mætt með skilningi.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is