Háskóli Íslands

Rannsakar heimafæðingar á Íslandi

Berglind Hálfdánsdóttir, ljósmóðir og doktorsnemi

Berglind Hálfdánsdóttir, ljósmóðir og doktorsnemi við Háskóla Íslands hlaut nýlega styrk úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda. Rannsókn hennar snýst um útkomu og áhrifaþætti heimafæðinga á Íslandi og er tilgangurinn að styðja við þróun barneignarþjónustu í heilbrigðiskerfinu. „Rannsóknin tekur fyrst og fremst til hraustra kvenna og ber útkomu heimafæðinga saman við útkomu sjúkrahúsfæðinga í sambærilegum hópum,“ segir Berglind. Kveikjan að rannsókn Berglindar er sú staðreynd að heimafæðingum á Íslandi hefur fjölgað mikið á síðustu árum. „Þær nálgast nú 2% fæðinga, sem er hærra hlutfall en í flestum vestrænum ríkjum. Enn hefur ekki verið gerð fræðileg rannsókn á útkomu fæðinga sem sinnt er á þessu þjónustustigi hér á landi.“

Berglind útskýrir að barneignarþjónustu sé hægt að veita við á mismunandi hátt við ólíkar aðstæður. „Hver fæðing er einstök og ekki sjálfgefið að sama þjónusta henti öllum fjölskyldum. Fjölbreytt þjónusta sem veitt er í takt við óskir verðandi foreldra og byggð á grunni vísindalegrar þekkingar er að mínu mati forsenda áframhaldandi þróunar barneignarþjónustu í heilbrigðiskerfinu.“ Þar sem rannsóknin er á frumstigi hafa niðurstöður ekki enn komið fram. „Erlendar rannsóknir á sambærilegum hópum hraustra kvenna leiða gjarnan í ljós jafn góða eða betri útkomu heimafæðinga þegar þær eru bornar saman við sjúkrahúsfæðingar. Þó þessar niðurstöður séu í góðu samræmi við hugmyndafræði ljósmæðra um fæðingu sem náttúrulegt, lífeðlislegt ferli er útkoma rannsókna á heimafæðingum háð þjónustu og staðháttum í hverju landi, og því ekki hægt að fullyrða að þessar niðurstöður eigi við um Ísland.“

Með rannsókn sinni leggur Berglind sitt af mörkum í þekkingargrunn íslenskrar ljósmóðurfræði, sem er ung fræðigrein hérlendis. Auk þess munu niðurstöður bæta við þekkingu á útkomu heimafæðinga sem orðið hafa til á síðustu árum víða um heim.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is