Háskóli Íslands

Væntingar og viðhorf kvenna til sársauka í fæðingu

Sigfríður Inga Karlsdóttir, ljósmóðir og doktorsnemi við hjúkrunarfræðideild

Sigfríður Inga Karlsdóttir, ljósmóðir og doktorsnemi við hjúkrunarfræðideild HÍ, sem hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði Ingibjargar R. Magúsdóttur, rannsakar væntingar og viðhorf kvenna til sársauka og meðferðar við sársauka í fæðingu. „Gögnum verður hvortveggja safnað með djúpviðtölum og spurningalistum sem lagðir eru fyrir konur á meðgöngu og síðan aftur að fæðingu lokinni. Aðalmarkmiðin eru að varpa ljósi á væntingar og reynslu kvenna af fæðingu, með áherslu á upplifun þeirra af sársauka og meðferð við sársauka,“ segir hún.

Áhugi á rannsóknarverkefninu er tilkomin vegna tuttugu ára starfsreynslu Sigfríðar sem ljósmóður. „Oft hefur mér fundist of lítil athygli beinast að því sem konurnar sjálfar gera til að komast í gegnum sársauka sem fylgir fæðingu. Hvað varðar fræðsluefni sem er í boði er yfirleitt aðaláhersla á það sem ljósmæður og læknar gera til að minnka sársauka í fæðingu. Aftur á móti er lítil áhersla lögð á það hvernig konur undirbúa sig, hvað þær sjálfar gera meðan á fæðingu stendur og hvaða viðhorf þær hafa til sársauka.“

Sigfríður segir að rannsóknir bráðvanti á sviðinu og því komi þekking sem hún aflar til með að nýtast vel í klínísku starfi ljósmæðra. Eins munu niðurstöður beina sjónum að því hvað konur geta sjálfar gert til að undirbúa sig fyrir sársauka við fæðingu. „Niðurstöður liggja fyrir úr fyrstu rannsókninni og eru grein um þær í ritrýningarferli í bresku ljósmæðrablaði. Unnið er að næstu grein sem fjallar um væntingar og viðhorf kvenna á meðgöngu um sársauka og meðferð við sársauka í fæðingu. Mjög fáar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á þessu sviði og því hafa rannsóknirnar mikið vísindalegt gildi fyrir ljósmóðurfræðina. Einnig er hugmyndin að þróa klínískar leiðbeiningar upp úr niðurstöðum rannsóknanna til að nota við fræðslu bæði fyrir og eftir fæðingu.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is