Háskóli Íslands

Ingjaldssjóður styrkir tónlistarnema til framhaldsnáms

Þrír tónlistarnemendur í framhaldsnámi erlendis fengu á dögunum styrk úr Ingjaldssjóði við Háskóla Íslands. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og er heildarupphæð úthlutaðra styrkja kr. 2.250.000. 
 
Ingjaldssjóður var stofnaður 17. nóvember 2015 til minningar um Ingjald Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ingjaldur starfaði lengst af við Háskóla Íslands og arfleiddi hann skólann að öllum eigum sínum. Stofnfé sjóðsins nam sjötíu milljónum króna. Samkvæmt fyrirmælum sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds skal sjóðurinn styrkja efnilega íslenska námsmenn við Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun og alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist.
 
Styrkhafar árið 2018 eru:
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópransöngkona stundaði söngnám við Söngskóla Sigurðar Demetz hjá Hallveigu Rúnarsdóttur og Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og lauk framhaldsprófi þaðan árið 2013. Árið 2018 lauk hún bakkalárnámi í klassískum söng frá Hanns Eisler tónlistarháskólanum í Berlín með hæstu einkunn. Álfheiður Erla stundar nú meistaranám í óperusöng við sama skóla. Helstu kennarar hennar við skólann eru Anna Korondi, Liana Vlad, Hendrik Heilmann og Wolfram Rieger. Frá árinu 2016 hefur Álfheiður Erla verið styrkþegi Yehudi Menuhin Live Music Now sjóðsins sem styrkir ungt tónlistarfólk til að flytja tónlist til fólks sem ekki getur sótt hefðbundna tónleikasali. Álfheiður Erla hefur tekið þátt í ýmsum óperuuppfærslum. Hún hefur m.a. farið með hlutverk Súsönnu í Le nozze di Figaro í Uferstudios Berlin, Marzellinu í Fidelio í Liszt Akademíunni í Búdapest og Poppeu í L'incoronazione di Poppea í Freiraum Berlin. Hún kemur einnig reglulega fram á tónleikum á Íslandi. Síðastliðin fjögur sumur hefur hún tekið þátt í dagskrá Menningarnætur með tónleikum í Dómkirkjunni í Reykjavík ásamt Evu Þyri Hilmarsdóttur píanóleikara. Vorið 2018 fluttu þær einnig norræna vordagskrá á Tíbrártónleikum í Salnum og í Hofi á Akureyri. Álfheiður Erla var valin til þess að taka þátt í Britten Pears Young Artist Programme sumarið 2018 þar sem hún starfaði með heimsþekktu tónlistarfólki, m.a. söngkonunni Anne Sofie von Otter. Álfheiður Erla var einnig valin til þess að taka þátt í vikulöngu meistaranámskeiði hjá Renée Fleming í Carnegie Hall í janúar 2019. Í vor mun Álfheiður Erla fara með titilhlutverkið í óperunni Mjallhvíti (Wolfgang Mitterer/Engelbert Humperdinck) í Staatsoper Berlin. 
 
Steinar Logi Helgason stundar meistaranám í kammersveitastjórnun við Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Steinar hafði áður lokið bakkálárgráðu og kantorsprófi í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands og Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem Björn Steinar Sólbergsson var hans aðalkennari. Steinar hefur komið víða við sem stjórnandi og organisti, meðal annars á Sumartónleikum í Skálholti og Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju ásamt því að hafa haldið fjölda kórtónleika. Steinar var stofnandi og stjórnandi Kammerkórs Listaháskóla Íslands en hann hefur einnig stjórnað Kór Háteigskirkju, Kór Langholtskirkju og Kór Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands. Þá hefur Steinar starfað sem organisti Háteigskirkju og í afleysingum í Langholtskirkju og Hallgrímskirkju. Hann hefur hlotið styrki úr Halldór Hansen sjóðnum fyrir framúrskarandi árangur í tónlist og Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir rannsóknir á tónlist Þorkels Sigurbjörnssonar og Jóns Nordal, undir handleiðslu Hróðmars I. Sigurbjörnssonar. Steinar Logi hefur einnig unnið náið með útgáfunni Alvör sem hefur haft að markmiði sínu að gefa út nýja tónlist eftir ung íslensk tónskáld.
 
Örnólfur Eldon Þórsson stundar framhaldsnám í tónsmíðum við Hochschule für Musik, Theater und Medien Hannover í Þýskalandi, undir handleiðslu Prof. Ming Tsao, Gordon Williamson og Joachim Heintz. Í náminu er lögð áhersla á framsækna nútímatónlist, hvort tveggja hljóðfæratónlist og raftónlist, en mikið er lagt upp úr samstarfi við flytjendur. Tónlist Örnólfs hefur hljómað víða um Evrópu, t.d. í Aachen, Lüneburg, Karlsruhe og Hannover í Þýskalandi, Brno í Tékklandi, Ung Nordisk Musik í Helsinki og Bergen, Off Borders Festival í Þessalóníku, Íslandi Öö í Tallinn og Tartu, og flytjendur hennar erlendis m.a. verið Neue Vokalsolisten Stuttgart, MusikFabrik, Lüneburger Symphoniker, Hamrahlíðarkórinn og Áshildur Haraldsdóttir. Hér heima hafa Hamrahlíðarkórinn, CAPUT-hópurinn, Elja kammersveit flutt tónlist Örnólfs og hún hljómað innan tónleikaraðanna Jaðarbers og Hljóðana. Í nóvember 2017 hlaut Örnólfur minningarverðlaun svissneska tónskáldsins Klaus Huber fyrir verkið square without corners fyrir básúnu og rafhljóð, en verðlaunin eru veitt bæði tónskáldi og flytjanda verks, sem þykir bera merki um prýðilegt samstarf þeirra. Nýjasta tónsmíð Örnólfs, fyrir tanbúr og rafhljóð, var frumflutt þann 22. nóvember síðastliðinn á TRAIECT-tónlistarhátíðinni í Hannover.
 
Það er gaman frá því að segja að allir styrkhafarnir sungu saman í Hamrahlíðarkórnum á sínum tíma.
 
Ingjaldssjóður, minningarsjóður Ingjalds Hannibalssonar prófessors, er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til ávinnings fyrir starf Háskóla Íslands með styrkjum til stúdenta og starfsfólks.
 
Styrktarsjóðir á borð við Ingjaldssjóð eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is