Auglýst hefur verið eftir umsóknum um styrki úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands en sjóðurinn hefur veitt styrki til námsdvalar fyrir nemendur í HÍ í Japan og japanska nemendur við HÍ. Einnig hafa verið veittir dvalarstyrkir til nýdoktora, kennara og fræðimanna. Styrkirnir standa bæði nemendum í grunn- og framhaldsnámi til boða, auk þess sem sjóðnum er ætlað að stuðla að kennaraskiptum. Watanabe-styrktarsjóðurinn hefur veitt styrkhöfum frábært tækifæri til að nema og/eða stunda rannsóknir hér á landi eða í Japan og er þetta í áttunda skipti sem styrkir verða veittir úr sjóðnum.
Umsóknarfrestur um styrkina er til 15. janúar 2018.
Nemendur sem skráðir eru í Háskóla Íslands og hyggjast stunda hluta af sínu námi við japanskan háskóla geta sótt um styrk. Einnig geta nemendur við japanska háskóla sem hyggjast stunda hluta af námi sínu við Háskóla Íslands sótt um. Þá geta starfsmenn Háskóla Íslands og starfsmenn japanskra háskóla og rannsóknastofnana sótt um styrki úr sjóðnum. Val á styrkhöfum er í höndum stjórnarmanna.
Styrkir verða veittir fyrir kostnaði við uppihald í formi mánaðarlegra greiðslna. Gert er ráð fyrir að hver styrkur verði 200.000 ISK á mánuði vegna dvalar á Íslandi og 150.000 JPY á mánuði vegna dvalar í Japan. Styrkþegar sem dvelja lengur en einn mánuð fá einnig allt að 200.000 ISK í ferðastyrk. Sjóðurinn veitir ekki styrk fyrir skólagjöldum eða öðrum kostnaði. Nýdoktorar, kennarar og fræðimenn eiga líka kost á allt að 500.000 ISK styrk til styttri dvalar sem tengist fræðistörfum eða rannsóknasamstarfi milli Háskóla Íslands og mennta- eða fræðistofnanna í Japan.
Sjóðurinn getur styrkt allt að níu mánaða dvöl til náms eða rannsóknastarfa. Dvalartíminn á að vera á skólaárinu 2018-2019.
Umsóknir skulu ritaðar á ensku og sendar á rafrænu formi á tölvupóstfangið ask@hi.is.
Um Watanabe-styrktarsjóðinn
Watanabe-styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 og hefur það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Sjóðurinn veitir íslenskum stúdentum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands.
Toshizo Watanabe, sem lagði fram stofnfé sjóðsins, er frumkvöðull og einn af aðstandendum Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Á yngri árum var hann skiptinemi við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum og kynntist þar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Við undirritun stofnskrár sjóðsins sagðist Watanabe vilja endurgjalda aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, gamla skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
Stjórn sjóðsins skipa Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði, sem jafnframt er formaður stjórnar, Toshizo „Tom“ Watanabe, stofnandi sjóðsins, og Ingimundur Sigfússon, fyrrverandi sendiherra.
Reynslusögur styrkhafa Watanabe-styrktarsjóðsins er að finna á heimasíðu sjóðins: http://sjodir.hi.is/watanabesjodurinn
Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð er hægt að nálgast á heimasíðu Watanabe-styrktarsjóðsins við Háskóla Íslands á sjóðavef Háskóla Íslands.
Einnig veitir Hafliði Sævarsson, verkefnastjóri á Skrifstofu alþjóðasamskipta, upplýsingar um sjóðinn.
Sími: 525-5264. Netfang: haflidis@hi.is.